Fótbolti

Fjölskyldutilfinning en ekki peningar drógu Gerrard til Sádi Arabíu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steven Gerrard á Anfield í mars fyrr á þessu ári þar sem hann tók þátt í góðgerðaleik.
Steven Gerrard á Anfield í mars fyrr á þessu ári þar sem hann tók þátt í góðgerðaleik. Getty/LFC Foundation

Steven Gerrard hefur veitt sín fyrstu viðtöl eftir að fréttist af því að hann væri búinn að semja við sádi-arabíska félagið Al Ettifaq.

Gerrard skrifaði undir þriggja ára samning sem nýr þjálfari félagsins og fylgir þar í fótspor margra þekktra fótboltamanna sem hafa samið við lið í landinu.

Fyrrum fyrirliði Liverpool og enska landsliðsins tók stóra U-beygju í málinu því fyrst sagðist hann ekki ætla að fara suður til Sádi Arabíu en breytti svo snögglega um skoðun.

Hinn 43 ára gamli Gerrard var atvinnulaus eftir að hafa misst knattspyrnustjórastarfið hjá Aston Villa á miðju síðasta tímabili.

„Þegar ég fór til Sádi-Arabíu þá fann ég fyrir þessari sterku fjölskyldutilfinningu. Mér leið eins og ég væri velkominn,“ sagði Steven Gerrard við Twitter síðu Al Ettifaq.

„Það eru þrjú atriði sem ráða för hjá mér. Hlutirnir verða að vera í lagi fyrir fjölskyldu mína fyrst og fremst. Við þurfum að vera spennt og tilbúinn í nýja áskorun,“ sagði Gerrard.

„Í öðru lagi þarf fótboltaverkefnið að hafa metnað og það þarf að vera rétt vegna réttu ástæðnanna og svo í þriðja lagi þarf samningurinn einnig að skapa öryggi en það er samt í síðasta sætinu,“ sagði Gerrard.

Erlendir fjölmiðlar segja að Gerrard fá um tuttugu milljónir punda í árslaun eða um 3,4 milljarða króna. Það er fjórum milljónum meira en Jürgen Klopp fær hjá Liverpool. Gerrard fær því 690 fleiri milljónir í laun á hverju ári en knattspyrnustjóri Liverpool.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×