Erlent

Einn fylgj­enda Man­son látinn laus eftir 53 ár í fangelsi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Van Houten var 19 ára þegar morðin voru framin en er 73 ára í dag.
Van Houten var 19 ára þegar morðin voru framin en er 73 ára í dag. AP/Stan Lim/Los Angeles Daily News

Leslie Van Houten hefur verið látið laus úr fangelsi eftir að hafa afplánað 53 ára dóm fyrir aðild sína að morðinu á Leno og Rosemary LaBianca. Van Houten var 19 ára gömul þegar hún tók þátt í morðunum sem einn af fylgjendum Charles Manson.

Lögmaður Van Houten, sem í dag er 73 ára, segir hana nú dvelja í tímabundnu úrræði fyrir einstaklinga sem hafa verið látnir lausir.

Van Houten hafði óskað eftir reynslulausn um það bil 20 sinnum áður en nefnd um reynslulausn komst að þeirri niðurstöðu árið 2016 að hún uppfyllti nauðsynleg skilyrði. Síðan þá hefur nefndin komist fimm sinnum að sömu niðurstöðu en ríkisstjóri Kalíforníu ávallt beitt neitunarvaldi sínu.

Reynslulausn Van Houten varð þannig aðeins að veruleika eftir að málinu hafði verið áfrýjað og dómstóll komst að þeirri niðurstöðu að láta ætti hana lausa. Tók hann sérstaklega tillit til góðrar hegðunar Van Houten í fangelsi og að hún hefði haldið áfram að mennta sig og kennt öðrum.

Nancy Tetreault, lögmaður Van Houten, segir hana afar ánægða með að vera frjálsa en hún hafi löngum iðrast þess að hafa fallið undir áhrif Manson, sem lést í fangelsi árið 2017.

Ríkisstjórinn Gavin Newsom hefur hins vegar lýst yfir vonbrigðum með niðurstöðuna og þá hefur Cory LaBianca, dóttir Leno, tjáð óánægju sína. Segir hún börn sín og barnabörn aldrei hafa fengið að kynnast Leno og Rosemary og að missir þeirra hafi verið mikill.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×