Um­fjöllun, viðtöl, myndir og myndbönd: Valur - Fylkir 2-1 | Vals­menn með nauman sigur á Hlíðar­enda

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Valsmenn fagna.
Valsmenn fagna. Vísir/Diego

Valur hreppti naumlega sigur gegn Fylki í 14. umferð Bestu deildarinnar. Eftir að hafa komist tveimur mörkum yfir tókst Fylki að minnka muninn á lokamínútunum og gera úr þessu ansi spennandi leik, lokatölur 2-1 á Hlíðarenda. Valur saxar á forystu Víkinga í efsta sæti deildarinnar, en liðið er nú 6 stigum á eftir þeim. Fylkir berst áfram í botnbaráttunni. Mörk Vals skoruðu Orri Hrafn og Adam Ægir, mark Fylkismanna skoraði Ólafur Karl Finsen úr víti.

Ólafur Karl skoraði mark Fylkis í kvöld.Vísir/Diego

Leikurinn fór rólega af stað fyrstu mínúturnar og það mátti greina örlítið ryð í Valsmönnum eftir langt hlé milli leikja. Fylkismenn lágu mjög aftarlega á vellinum, leyfðu Völsurum að halda boltanum og reiddu sig á skyndisóknir

En eftir rólega byrjun fór boltinn heldur betur að rúlla hjá báðum liðum. Fylkislið var orðið þreytt á að liggja til baka, fór að koma ofar á völlinn og sköpuðu sér þó nokkur góð færi. Þetta gaf Völsurum sömuleiðis tækifæri hinum megin á völlinn, vörn Fylkismanna opnaðist meir eftir því sem liðið fór ofar.

Valsmenn fundu taktinn betur og á 23. mínútu tókst Patrick Pedersen að koma boltanum í netið, en markið var dæmt af vegna rangstöðu. Dómurinn var mikið vafaatriði og markið hefði mögulega átt að standa. Þrátt fyrir allt, mörg færi á báða bóga og virkilega opinn leik fóru liðin markalaus inn í hálfleikinn.

Það var svo Orri Hrafn Kjartansson sem braut ísinn fyrir Val í upphafi seinni hálfleiks með þrumuskoti. Ólafur Kristófer, markvörður Fylkis, setti hönd á boltann á leið sinni í netið en skotið var það fast að hann fór úr lið og þurfti aðhlynningu tveggja sjúkraþjálfara og eins læknis eftir á.

Og Valsmenn fagna meira.Vísir/Diego

Fylkismenn gáfu ekkert eftir þó þeir væru lentir marki undir og skömmu síðar átti Þórður Gunnar skot í slánna. En Adam Ægir jók svo forystu heimamanna á 62. mínútu eftir stoðsendingu Birkis Más, markið var engu síðra en það fyrra, glæsilegt slútt í fjærhornið.

Fylkismönnum tókst að minnka muninn rétt áður en venjulegum leiktíma lauk. Það mark skoraði Ólafur Karl Finsen úr vítaspyrnu sem hann fiskaði sjálfur en dómurinn var mjög umdeildur.

Þetta gerði lokamínútur leiksins mjög spennandi, sjö mínútum var bætt við vegna mikilla leiktafa. Fylkir reyndu hvað þeir gátu til að jafna leikinn í uppbótartíma, Pétur Bjarnason átti hættulegt skallafæri sem fór rétt framhjá markinu. En allt kom fyrir ekkert og niðurstaða leiksins 2-1 Valssigur.

Klippa: Mörkin úr leik Vals og Fylkis

Af hverju vann Valur?

Þetta var mjög jafn, opinn og spennandi leikur sem hefði getað dottið öðru hvoru megin. En Valsmenn mega þakka góðum skotfótum Adams Ægis og Orra Hrafns fyrir sigurinn, Fylkir sköpuðu sér fleiri hættuleg marktækifæri en skorti gæðin til að nýta þau.

Hverjir stóðu upp úr?

Adam Ægir var maður leiksins, skoraði frábært mark og var mjög sprækur á báðum köntum fyrir Valsara. Elfar Freyr átti einnig frábæran dag í öftustu línu.

Adam Ægir var frábær í kvöld.Vísir/Diego

Hvað gekk illa?

Færanýting Fylkis hefði mátt vera betri, þeir voru óheppnir upp að vissu marki og áttu tvö sláarskot. En oft á tíðum var liðið í hættulegri stöðu og tók rangar ákvarðanir.

Hvað gerist næst?

Valur leikur næst við Stjörnuna í Garðabæ, mánudaginn 17. júlí. Fylkismenn taka á móti HK degi síðar, þriðjudaginn 18. júlí.

Átti von á erfiðum leik

Arnar Grétarsson, þjálfari Vals.Vísir/Diego

„Þetta var svona leikurinn sem ég átti kannski svolítið von á, héldum boltanum í fyrri hálfleik og áttum nokkur fín færi sem við nýttum ekki.“ sagði Arnar Grétarsson, þjálfari Vals, strax eftir leik.

Arnar stóð í orðaskiptum við dómarann eftir að leiknum lauk. Valur skoraði mark sem hefði átt að standa en var dæmt ólöglegt vegna rangstöðu og fékk svo á sig mjög ódýra vítaspyrnu.

„Skorum mark, sem var löglegt. En svo komumst við yfir í seinni og bætum öðru markinu við, eftir það förum við aðeins til baka og þeir koma meira inn í leikinn. Svo fáum við þetta víti á okkur sem hleypir leiknum svolítið upp, menn vilja meina að hann hafi bara runnið til og það er blóðugt ef svo er. Við klárum leikinn en þetta var ekki frábær frammistaða af okkar hálfu.“

Valsliðið hefur verið í langri pásu og ekki spilað leik síðan 24. júní síðastliðinn. Það var viðbúið að liðið myndi taka tíma í að finna taktinn aftur.

„Ég átti von á erfiðum leik, erum ekki búnir að spila í 18 daga og svo er sól og vindur, völlurinn verður þurr þannig að það var ekki rosa flæði í þessu. Svo hefur Fylkir verið að gera góða hluti og það var erfitt að brjóta niður.“

Þjálfarinn horfir fram á veginn og vonast til að sækja aftur þrjú stig í næsta leik, en segir að frammistaða liðsins þurfi að vera betri en í kvöld.

„Fínt að fá þessi þrjú stig í hús, svo er leikur sem betur fer eftir nokkra daga bara, á mánudaginn kemur á móti Stjörnunni. Það verður bara annar leikur, menn þurfa bara að vera tilbúnir og menn þurfa að vera með betri frammistöðu þar.“ sagði Arnar að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira