Innlent

Gul viðvörun á Vesturlandi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Brim á vestanverðu Snæfellsnesi.
Brim á vestanverðu Snæfellsnesi. Vísir/RAX

Gul veðurviðvörun er í gildi á Vesturlandi. Veðurstofa Íslands spáir norðan hvassvirðri á svæðinu fram á laugardag.

Á vef Veðurstofunnar segir að búist sé við norðan hvassvirðri eða jafnvel stormi á stöku stað, einkum á sunnanverðu Snæfellsnesi með hvössum vindhviðum við fjöll 25-30 m/s.

Ökumenn ökutækja sem taka á sig mikinn vind, svo sem flutningabílar og húsbílar, ættu að hafa varann á.

Norðan og norðvestan 8-15 m/s í dag, hvassast vestantil á landinu og við austurströndina að því er segir í athugasemd veðurfræðings á vef Veðurstofunnar. Það bætir heldur í vind í kvöld. Þá verður víða rigning á norðurhelmingi landsins og jafnvel slydda til fjalla. Hiti á bilinu 3 til 8 stig. Bjart með köflum á sunnanverðu landinu en stöku skúrir síðdegis. Þar verður hiti á bilinu 10 til 17 stig, hlýjast syðst.

Á morgun er von á 10-18 m/s norðanátt en hægari vindi á austanverðu landinu. Þá verður víða rigning en skýjað með köflum og úrkomulítið suðvestan til. Hiti 10 til 18 stig, hlýjast sunnanlands, en 5 til 10 stig á Norður- og Austurlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×