Körfubolti

Ísland á tvo stráka meðal þeirra sex stigahæstu í Evrópumótinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Almar Orri Atlason og Orri Gunnarsson hafa skapað sér nafn með frammistöðunni á Evrópumótinu.
Almar Orri Atlason og Orri Gunnarsson hafa skapað sér nafn með frammistöðunni á Evrópumótinu. FIBA Europe

Tveir leikmenn íslenska tuttugu ára landsliðsins eru meðal sex stigahæstu leikmanna Evrópukeppni U20 liða sem stendur nú yfir í Heraklion á Krít.

Íslenska liðið tryggði sér áfram veru í A-deildinni með flottum sigri á Svartfjallalandi en íslensku strákarnir spila um 9. til 12. sæti á mótinu.

Ísland mætir fyrst Ítalíu og vinni liðið þann leik spila strákarnir um níunda sætið við annað hvort Slóveníu eða Spán. Tapist Ítalíuleikurinn þá spilar liðið við tapliðið úr hinum leiknum í leik um ellefta sætið.

Margir strákar í liðinu hafa notað þennan glugga vel til að sína mátt sinn og megin en það eru einkum tveir sem hafa komið sér í hóp stigahæstu manna.

Þetta eru þeir Almar Orri Atlason og Orri Gunnarsson. Orri var að spila með Haukum í Subway deildinni í vetur en Almar Orri yfirgaf KR fyrir tímabilið og fór í skóla til Bandaríkjanna.

Almar Orri er fimmti stigahæsti leikmaður mótsins með 17,2 stig í leik og Orri er sá sjötti stigahæsti með 16,8 stig í leik. Þriðji stigahæsti leikmaður íslenska liðsins á mótinu er síðan Þórsarinn Tómas Valur Þrastarson sem er tólfta sæti með 14,0 stig í leik.

Almar Orri skoraði mest 27 stig í frábærum sigri á Slóvenum í fyrsta leik en auk þess að skora 17,2 stig í leik þá er hann einnig með 6,2 fráköst og 1,8 stoðsendingu að meðaltali.

Orri átti sinn besta leik í sigrinum mikilvæga á Svartfjallalandi þegar hann skoraði 30 stig. Orri hefur skorað 21 stig eða meira í þremur leikjum og er auk 16,8 stig með 5,2 fráköst og 2,0 stolna bolta að meðaltali. Orri hefur líka skorað 3,2 þrista í leik þar sem hann hefur nýtt 32 prósent langskota sinna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×