Lífið

Ása Steinars við gos­stöðvarnar: „Ég held að ein­hver muni deyja hér í kvöld“

Íris Hauksdóttir skrifar
Ása er þrælvön þegar kemur að því að ganga að og mynda gos en segir upplifunina í þetta skipti ólíka fyrri gosum hér á landi.
Ása er þrælvön þegar kemur að því að ganga að og mynda gos en segir upplifunina í þetta skipti ólíka fyrri gosum hér á landi. Ása Steinars

Ævintýrakonan og ferðaljósmyndarinn Ása Steinars lét sitt ekki eftir liggja og arkaði upp að eldgosinu í góðra vina hópi í fyrradag. Upplifunina segir hún stórfenglega þó mikill hópur fólks sýni glæfralega hegðun í námundan við gosið.

Ása hefur fyrir löngu getið sér gott orð fyrir stór­brotn­ar landslagsmyndir bæði hérlendis sem og víða um heim. Myndir hennar hafa meðal annars fengið birtingu í tískutímaritinu Vogue þar sem hún starfar að hluta til samhliða því að ferðast um heiminn með myndavélina að vopni ásamt óteljandi drónum sem hún nýtir listilega við myndefni sitt.

Fór á fjallahjóli að gosstöðvunum

Ása er þrælvön þegar kemur að því að ganga að og mynda gos en segir upplifunina í þetta skipti ólíka fyrri gosum hér á landi.

„Þetta er löng ganga, en hún er á nokkuð jafnsléttu. Ég ákvað að fara á fjallahjóli frekar en að labba. Leiðin að eldgosinu tók alveg á. Það er búið að setja lausamöl á slóðann þannig hjólin voru svolítið að spóla þar. 

Á tímabili vorum við á sama hraða og göngufólk og við vorum að hugsa um að skilja hjólin eftir. En svo batnaði slóðinn þar sem er ekki búið að setja lausamöl. Síðustu tvo kílómetrana að gosinu komumst við ekki lengra með hjólin og skildum þau eftir og löbbuðum restina af leiðinni. 

Göngugarpar flykktust að gosinu eins og flugur í átt að ljósi segir Ása.Ása Steinars

Óvíst hvaða langtímaáhrif mengunin hefur á heilsuna

Það voru ekki kjöraðstæður þar sem það var norðanátt og gönguleiðin vísar í suður. Á tímabili er maður alveg að ganga í reyknum og menguninni. Í gegnum þau tímabil settum við upp gasgrímur og reyndum að hjóla eins hratt og við gátum.

Þetta er gífurlega mikill reykur og mengun þannig ég var frekar hissa að þeir skyldu opna gönguleið í suðri þegar það er norðanátt í viku. 

Því fólk sem fer hægt yfir er ansi lengi í miðjum reyk. Við vitum ekki alveg hvaða langtíma áhrif það getur haft á heilsuna.“

Ása segir þó bakarleiðina hafi reynst mun greiðfærari. „Já leiðin tilbaka var mun auðveldari, þá vorum við með vindinn í bakið og vorum ansi snögg út. Þannig í heildina var þetta bara ótrúlega skemmtileg og tók vel á. Það var ansi mögnuð upplifun að nálgast gosið, það er eitthvað við þetta gos sem er öðruvísi en þau fyrri. 

Eldgosið er á gróinni hraunbreiðu sem liggur á jafnsléttu.Ása Steinars

Eldgosið er sem stendur á gróinni hraunbreiðu sem liggur á jafnsléttu. Þegar við nálguðumst það, þá fundum við öll fyrir kraftinum. Það er eins og það sé einhver titringur í jörðinni. Við vorum þrjú saman og fundum öll fyrir þessu. 

Við lögðum eyrun að jörðinni og maður fann alveg drunur. Það er erfitt að lýsa því. Ég man ekki eftir þessari tilfinningu með hin gosin. 

Það er eins og maður sé að standa á frekar jarðfræðilega virkum stað. 

Fólk áttar sig ekki á að gígar geta brotnað og hraun gusast upp

Hvernig var fólk að hegða sér? „Það var mjög mismunandi,“ segir Ása og heldur áfram.

„Flestir héldu góða fjarlægð við gosið, voru með nesti, gítar og munnhörpu. Þannig við vorum með lifandi tónlist að horfa á gosið. 

En það kom á óvart hversu margir voru alveg við gígjinn. Fólk var að labba í gegnum gróðureldana og reykinn og síðan fara alveg að gígnum. Það er eins og fólk hafi ekki áttað sig á að þessir gígar geta brotnað og hraun gusast niður. Ég varð oft vitni af því í síðustu eldgosum.“

Ása var með hjartað í buxunum að fylgjast með hættulegri hegðun fólks við gosið.Ása Steinars

Fólk klifrar upp á ferskt hraunið

„Ég var að fljúga drónum þarna allt kvöldið með samtals ellefu batterí, þannig ég var að fylgjast með allskonar hegðun úr drónanum. Í eitt skiptið tók ég andköf og sagði við hópinn minn: Ég held að einhver muni deyja hér í kvöld. Fólk var að klifra upp á gíginn, klifra upp á ferskt hraunið. Það svo mikil hjarðhegðun í gangi held ég. 

Það er ekkert sem þú getur gert, björgunarsveitin vill ekki hætta lífinu sínu í að labba í gegnum gróðurelda, reyk og síðan reyna að tala þetta fólk til beint undir gígnum. 

Þannig þetta fór frekar mikið úr böndunum þarna, en sem betur fer hefur ekki enn farið illa.“

„Það er fullt af skiltum á leiðinni að gosinu en þegar þú kemur nær því þá eru engar upplýsingar. Þannig ég skil líka að fólk dragist að þessu sjónarspili. 

Þetta er soldið svona bara eins og flugur sem laðast að ljósi. 

Ég held að margir séu ekki að átta sig á hvar hættusvæðið liggur og það er að reyna að sjá þetta betur. 

Nær til 40 milljón manns

Ég myndi nánast leggja til að búa til stórt skilti um hvernig á að hegða sér, svona MUST READ BEFORE ENTER, skilti til að fólk skilji hættuna. Eða þá að stjórnvöld fari að nýta sér miðla eins og mína til að miðla upplýsinum til ferðamanna. 

Minn Instagram aðgangur er að ná til 40 milljónir manna á mánuði og það eru um 300 þúsund manns að horfa myndböndin mín daglega þar sem ég er að pósta minni upplifun af gosinu. En samt eru alltaf farnar gamaldags leiðir í að miðla upplýsingum, eins og í gegnum sms.“

Væri gaman að sjá stjórnvöld nýta sér mátt samfélagsmiðla meira

„Það þarf bara að framleiða myndbönd og fræða á samfélagsmiðlum. Það er þar sem fólk er, það er í símanum sínum. Það er ástæðan fyrir því að þau eru að fara að þessu gosi til að byrja með. Þau sjá þetta á samfélagsmiðlum. Þannig ég hef sagt þetta margoft, en það væri gaman að sjá stjórnvöld fara að nýta sér mátt samfélagsmiðla aðeins meira og koma inn á nútímann. Endilega skella sér, þetta er alltaf mögnuð upplifun.“

Ása segir það magnaða upplifun að berja gosið augum og hvetur fólk til að skella sér svo framarlega sem það sýni aðgát. Ása Steinars

Endaði með kuldaskjálfta

Spurð um ráð fyrir komandi gosgesti segir Ása hlýjan fatnað skipta öllu máli. „Ég myndi fara betur klædd en þú gerir ráð fyrir. 

Ég hélt að ég væri að klæða mig mjög vel en ég endaði með kuldaskjálfta, eftir allan svitann við að hjóla þetta og síðan standa kyrr í þessum mikla vindi. 

Sem betur fer var strákur sem ég þekkti með svefnpoka, þannig ég sat í honum á meðan ég flaug drónanum. 

Ég myndi líka klárlega mæla með að skella mér á fjallahjóli, mér fannst það gera upplifunina enn meira spennandi. Ég er allavega mjög spennt fyrir því að gosstöðvarnar opni aftur og að ég geti skellt mér.“

Áhugasamir geta fylgst með ferðalögum Ásu hér


Tengdar fréttir

Feimin að eðlisfari en milljónir manna fylgjast með

Ásu Steinarsdóttur er margt til lista lagt. Hún er menntaður tölvunarfræðingur og verkfræðingur en starfar núna sem áhrifavaldur í fullu starfi. Ása er meðal fremstu kvenna í heiminum á sínu sviði. Hún sérhæfir sig í ævintýramennsku, ljósmyndun og gerð myndbanda bæði fyrir sína miðla og fyrir fyrirtæki. Rætt var við Ásu í Íslandi í dag á Stöð 2 í gærkvöldi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.