Körfubolti

Ísland leikur um ellefta sætið eftir tap gegn Ítölum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Tómas Valur Þrastarson í baráttunni gegn Svartfellingum á dögunum.
Tómas Valur Þrastarson í baráttunni gegn Svartfellingum á dögunum. FIBA

Íslenska karlalandsliðið í körfubolta skipað leikmönnum 20 ára og yngri mátti þola 12 stiga tap gegn Ítalíu á Evrópumótinu í körfubolta í dag, 98-86. Leikurinn var liður í umspili um 9.-16. sæti A-deildar Evrópumótsins og nú er ljóst að Ísland mun leika um 11. sætið.

Íslenska liðið byrjaði leikinn af miklum krafti og náði fljótt tíu stiga forskoti í stöðunni 19-9. Ítalir snéru þó taflinu sér í hag fyrir lok fyrsta leikhluta og leiddu með þremur stigum að honum loknum.

Mikið jafnræði var með liðunum í öðrum leikhluta og skiptust liðin á að hafa forystuna. Íslenska liðið náði mest sex stiga forskoti, en staðan var jöfn þegar flautað var til hálfleiks, 50-50.

Ítalska liðið tók þó öll völd í þriðja leikhluta. Ítalir skoruðu á einum tímapunkti 17 stig í röð og breyttu stöðunni úr 57-54 í 57-71. Eftir það varð róðurinn þungur fyrir íslensku strákana og þrátt fyrir gott áhlaup Íslands í fjórða leikhluta unnu Ítalir að lokum 12 stiga sigur, 98-86.

Ísland mun því leika um 11. sæti á morgun, en Ítalir leika um 9. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×