Skoðun

Léttum álögum af íslenskum fyrirtækjum

Viðskiptaráð vann nýlega greiningu á innleiðingu sjálfbærniregluverks Evrópusambandsins. Agla Eir Vilhjálmsdóttir, lögfræðingur Viðskiptaráðs, vann að skýrslu ráðsins um málið ásamt Elísu Örnu Hilmarsdóttur, hagfræðingi hjá ráðinu. Niðurstaðan var sú að hluti regluverksins hefði verið innleiddur með meira íþyngjandi hætti hér á landi en þörf krefur. Það leiðir til þess að íslensk fyrirtæki búa við meiri kostnað en fyrirtæki í öðrum Evrópulöndum vegna þessa.

Þarna er því um að ræða skýrt dæmi um svokallaða ,,gullhúðun“ við innleiðingu EES-reglna í landsrétt. Með því er átt við tilvik þar sem stjórnvöld einstakra ríkja herða á íþyngjandi EES-gerðum til að ná fram sérstökum markmiðum á heimavelli eða „lauma“ heimasmíðuðum ákvæðum inn í innleiðingarfrumvörp. Athygli var m.a. vakin á þessari tilhneigingu í skýrslu starfshóps um EES-samstarfið sem kom út í september 2019.

Á liðnum þingvetri óskaði ég, ásamt fleiri þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, eftir að umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra flytti Alþingi skýrslu óháðra sérfræðinga um innleiðingu EES-gerða. Beiðnin var samþykkt á þinginu. Meðal annars óskuðum við eftir að umfjöllun um hvort gengið hefði verið lengra en þörf var á innleiðingu EES-gerða. Ráðuneytið varð fyrir valinu þar sem heppilegt er að framkvæmdin sé skoðuð á einu sviði til að byrja með. Að auki höfðu mér borist ábendingar um að þar væri að finna ýmis dæmi um að of langt væri gengið. Gert er ráð fyrir að ráðherra skili umræddri skýrslu á næsta þingvetri.

Þrátt fyrir að stjórnvöld og Alþingi leggi áherslu á að innleiðing íþyngjandi EES-gerða gangi ekki lengra en gerðirnar sjálfar krefjast gagnvart borgurunum, vitum við að víða er pottur brotinn. Úttekt á vegum forsætisráðuneytisins sýnir þetta og greining Viðskiptaráðs sömuleiðis.

„Gullhúðun“ er mjög ámælisverð. Hún er til þess fallin að villa um fyrir þinginu. Vilji einstök ráðuneyti gera breytingar á lögum samhliða innleiðingu er lágmarkskrafa að það komi skýrt fram í umræddum lagafrumvörpum.

Það er ljóst að þingið þarf að bregðast við þessum ábendingum og létta álögum af íslenskum fyrirtækjum svo þau sitji í það minnsta við sama borð og evrópskir keppinautar þeirra.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×