Siðferðiseftirlitið sér um að framfylgja lögum Íran um klæðaburð kvenna, sem ber að hylja hár sitt og klæðast víðum fatnaði sem felur vaxtalag þeirra. Konur sem þykja brjóta gegn lögunum eiga fyrst að fá viðvörun en geta síðan átt von á því að verða handteknar.
Amini, 22 ára, var í heimsókn í Tehran ásamt fjölskyldu sinni þegar hún var handtekin. Hún virðist hafa verið klædd höfuðklút en var sögð hafa borið hann „vitlaust“. Hún missti meðvitund og lést eftir að hafa verið færð í varðhald þar sem hún átti að fá „fræðslu“.
Amini var sögð hafa verið lamin með kylfu í höfuðið og að höfði hennar hefði verið lamið upp við vegg. Mikil mótmæli brutust út í kjölfar andláts hennar, þar sem milljónir kölluðu eftir því að siðferðislögreglan yrði lögð niður.
Nærri 600 létust í mótmælaaðgerðum, þar af nokkrir sem voru teknir af lífi.
Siðferðislögreglan hvarf um stund og margar konur hættu alfarið að bera höfuðslæður. Margir sögðust bera þá von í brjósti um að varanlega breytingu væri að ræða.
Nú virðast þær vonir hins vegar úti en yfirvöld hafa meðal annars brugðist við með því að loka fyrirtækjum þar sem slæðu-lögin eru ekki virt.