Handbolti

Aftur í at­vinnu­mennsku

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Andri Már er mættur aftur til Leipzig.
Andri Már er mættur aftur til Leipzig. Leipzig

Handknattleiksmaðurinn Andri Már Rúnarsson er genginn í raðir þýska úrvalsdeildarfélagsins Leipzig frá Haukum. Þar hittir hann fyrir þjálfara sem hann þekkir vel en faðir hans, Rúnar Sigtryggsson, hefur stýrt liðinu síðan í nóvember á síðasta ári.

Hinn tvítugi Andri Már lék vel með Haukum í Olís-deildinni í handbolta á síðustu leiktíð. Haukar fóru alla leið í úrslitaeinvígið þar sem þeir töpuðu gegn ÍBV. Þá spilaði Andri Már stórt hlutverk í íslenska U-21 árs landsliðinu sem nældi nýverið í brons á HM.

Miðjumaðurinn ungi lék með Stuttgart í Þýskalandi áður en hann gekk í raðir Hauka. Hann er nú mættur aftur á meginland Evrópu og það á stað sem hann þekkir vel. Í tilkynningu Leipzig kemur fram að Andri Már hafi verið fjögur ár í akademíu félagsins.

„Ég hef fylgst vel með því sem er að gerast hjá Leipzig. Þegar ég var í akademíu félagsins var það draumur minn að spila fyrir aðalliðið. Ég þurfti ekki að hugsa mig lengi um þegar félagið hafði samband og er mjög spenntur fyrir því að spila í bestu deild í heimi,“ sagði Andri Már í viðtali sem birtist á heimasíðu félagsins.

Leipzig endaði í 11. sæti þýsku úrvalsdeildarinnar með 31 stig að loknum 34 leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×