Erlent

Ekkert sam­komu­lag í höfn en á­kveðin skref tekin fram á við

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Kerry og Nicholas Burns, sendiherra Bandaríkjanna í Kína, mæta til fundar í gær.
Kerry og Nicholas Burns, sendiherra Bandaríkjanna í Kína, mæta til fundar í gær. AP/Ng Han Guan

Ekkert samkomulag náðist í viðræðum erindreka Bandaríkjanna og Kína um loftslagsmál sem staðið hafa yfir í Pekíng. John Kerry, sérlegur sendifulltrúi Bandaríkjaforseta í loftslagsmálum, sagðist hins vegar fagna því að viðræður væru hafnar á ný.

Kerry fundaði ekki með Xi Jinping, forseta Kína, en síðarnefndi sagði í ræðu í gær að Kína myndi nota eigin aðferðir til að glíma við loftslagsvandann og gera það samkvæmt eigin tímaáætlun. Kerry brást við með því að segja að Bandaríkin væru ekki að leggja Kína né öðrum línurnar, heldur væru það vísindalegar niðurstöður sem kölluðu á aðgerðir.

Kerry var afar diplómatískur og benti á að Bandaríkin og Evrópu ættu einnig í vandræðum með að hætta notkun jarðefnaeldsneyta. „Þetta er erfitt viðfangsefni,“ sagði hann. „Við viðurkennum það.“

Framtíð loftslagmála er að stórum hluta í höndum Bandaríkjanna og Kína en Kínverjar eru ábyrgir fyrir þriðjungi allrar losunar og Bandaríkjamenn eiga stærsta hluta hennar sögulega séð. Ef takast á að forða heimsbyggðinni frá verstu áhrifum loftslagsbreytinga verða ríkin að taka sig verulega á.

Stefnt hefur að því að takmarka hlýnun jarðar við 1,5 gráður en öll hlýnun umfram það er talin munu skapa aðstæður sem maðurinn mun eiga afar erfitt með að aðlagast. Hlýnunin hefur þegar náð 1,2 gráðum.

Kínverjar hafa sannarlega gripið til aðgerða og ráðist í viðameiri framkvæmdir við endurnýjanlega orkugjafa en nokkurt annað ríki. Á sama tíma hafa hins vegar einnig risið fjöldi nýrra kolaknúinna orkuvera en kol eru „óhreinasti“ orkugjafinn þegar kemur að loftslagsmálum.

Sérfræðingar segja jákvætt að Bandaríkin og Kína eigi nú aftur í viðræðum um loftslagsmál og ekki síður að þær snúist um endurnýjanlega orkugjafa og mögulegar lausnir ekki síður en að setja þrýsting á Kína að hraða áætlunum sínum um að hætta notkun kola.

Kínverjar hafa sagst munu ná hámarkslosun fyrir 2030 og hætta losun fyrir 2060.

Kerry hefur lagt áherslu á að loftslagsviðræðurnar eigi að vera aðskildar viðræðum um önnur og „pólitískari“ mál, enda sé um að ræða ógn við alla heimsbyggðina. Wang Yi, æðsti embættismaður Kína í utanríkismálum, segir hins vegar ekki hægt að aðskilja þær frá samskiptum Kína og Bandaríkjanna almennt.

Wang segir Bandaríkin þurfa að fylgja „sanngjarnri, raunhæfri og jákvæðri“ stefnu gagnvart Kína.

Hér má finna ítarlega umfjöllun New York Times um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×