Erlent

Þriðjungur katta á eyjunni drepist vegna kórónu­veiru

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Kettirnir fá lífhimnubólgu og drepast.
Kettirnir fá lífhimnubólgu og drepast. Vísir/Vilhelm

Talið er að um 300 þúsund kettir á eyjunni Kýpur hafi drepist á liðnu ári vegna kórónuveiru. Þetta eru um þriðjungur því að heildarfjöldi katta var í kringum eina milljón.

Kettirnir sýkjast af týpu af kórónuveiru sem er þó ekki tengd COVID-19. Sýkingin byrjar sem væg magakveisa en getur orðið að skæðri lífhimnubólgu. Hvítu blóðkornin bera veiruna um líkamann og hún veldur bólgum í iðrum, nýrum og heila sem getur leitt til dauða.

Veiran er ekki nýtilkomin heldur hefur hún verið til lengi, á Kýpur sem og öðrum löndum. Grunur leikur á að veiran hafi stökkbreyst því að hún virðist nú smitast fjörutíufalt miðað við það sem hún gerði fyrir aðeins tveimur árum.

Ekki bundið við Kýpur

Samkvæmt breska blaðinu The Guardian hafa vísindamenn áhyggjur af stöðunni. Teymi við háskólann í Edinborg rannsakar nú veiruna. Dýrameinafræðingurinn Charalampos Attipa bendir á að kettir geti smitast af COVID-19 og því hafi margir kettir myndað mótefni eftir heimsfaraldurinn. Það gæti hafa knúið áfram þróun annarra kórónuveira í köttum.

Önnur uggandi staðreynd er að vandamálið virðist ekki bundið við Kýpur. Þegar eru byrjuð að berast svipuð tíðindi frá nálægum löndum, svo sem Líbanon, Tyrklandi og Ísrael. Í öllum þessum löndum er mikið af villiköttum.

Rándýr lyf

Hægt er að lækna lífhimnubólgu katta með lyfjameðferð. En lyfin eru mjög dýr. Í Bretlandi kosta lyfin í kringum 5 þúsund pund, eða rúmlega 840 þúsund krónur. Fæstir eru tilbúnir til að leggja í þann kostnað fyrir kött, hvað þá villikött.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×