Sport

Fordæmdur fyrrum eigandi fékk 7,9 milljarða sekt frá NFL

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dan Snyder hefur verið hrakinn úr NFL deildinni sem margir fagna en hann er líka 798 milljörðum ríkari.
Dan Snyder hefur verið hrakinn úr NFL deildinni sem margir fagna en hann er líka 798 milljörðum ríkari. Getty/Al Pereira

NFL-deildin hefur ákveðið að sekta Dan Snyder, fyrrum eiganda Washington Commanders, um sextíu milljónir dollara eftir að hafa fengið niðurstöður úr sjálfstæðri rannsókn.

Sextíu milljónir dollara er svakaleg sekt en það jafngildir 7,9 milljörðum íslenskra króna.

Snyder fær sektina fyrir að hafa áreitt starfsmann félagsins kynferðislega og fyrir að hafa reynt að leyna upplýsingum um tekjur félagsins fyrir NFL

Hann er sagður hafa verið mjög ósamvinnuþýður við rannsóknarfólk fyrir utan eitt klukkutíma viðtal sem hann veitti loksins sautján mánuðum eftir að rannsóknin hófst.

Í rannsókninni var rætt við 44 starfsmenn félagsins en margir háttsettir aðilar neituðu hins vegar að tjá sig um málið.

Rannsóknin hófst fimmtán dögum eftir að Tiffani Johnston sakaði Snyder um kynferðislega áreitni.

Snyder ætti þó ekki að vera í miklum vandræðum með að greiða þessa sekt því við sama tilfelli staðfesti NFL sölu hans á Washington Commanders liðinu fyrir 6,05 milljarða Bandaríkjadala eða 798 milljarða íslenskra króna.

Þessi risastóra sekt er því aðeins eitt prósent af söluverðinu.

Roger Goodell, yfirmaður NFL, segir að NFL deildin sé ánægð með niðurstöðuna.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×