Þetta segir Már Kristjánsson, framkvæmdastjóri lyflækninga- og bráðaþjónustu á Landspítalanum, í samtali við mbl.is.
Að sögn Más var reiknað með töluverðri aðsókn í sumar vegna slysa, ekki síst vegna mikils fjölda erlendra ferðamanna. Hins vegar hafi komið á óvart hversu margir hafi þurft að sækja þjónustu vegna umgangspesta og sýkinga.
„Það eru á hverjum degi alltaf einhverjir ferðamenn sem koma. Það sem er svolítið óvænt og óvanalegt fyrir þennan árstíma er að það er búið að vera óvanalega mikið af pestum. Það hafa verið bæði öndunarfæraveirur og nóróveirusýkingar. Þessi umferðaróhöpp og frítímaslys hafa líka verið nokkuð mörg,“ segir Már.
Þá segir hann kórónuveiruna enn vera að valda álagi en töluverður fjöldi sé enn að sækja þjónustu vegna Covid-19.
Sumarleyfi setja að sjálfsögðu strik í reikninginn, líkt og búast má við.
„Það eru erfiðleikar vegna sumarleyfa annarra þjónustustiga. Líka meðal okkar starfsfólks. Það dregur úr hraða og afköstum. Það er öðruvísi álag en engu að síður fyrirsjáanlegt,“ segir Már. Það ætti hins vegar að lagast eftir um tvær vikur, þegar fólk fer að skila sér aftur eftir sumarfrí.