Erlent

Viðræður við Norður-Kóreu hafnar

Samúel Karl Ólason skrifar
Travis King var handsamaður þegar hann hljóp yfir landamærin til Norður-Kóreu á þriðjudaginn í síðustu viku og hefur ekkert frést af honum síðan þá.
Travis King var handsamaður þegar hann hljóp yfir landamærin til Norður-Kóreu á þriðjudaginn í síðustu viku og hefur ekkert frést af honum síðan þá. AP/Ahn Young-joon

Embættismenn Sameinuðu þjóðanna sem stýra einu landamærastöð Norður- og Suður-Kóreu segjast í samskiptum við yfirvöld í norðri vegna bandarísks hermanns sem hljóp yfir landamærin í síðustu viku. Hingað til höfðu ráðamenn í Pyongyang neitað að taka upp tólið.

Travis King hljóp yfir landamærin á þriðjudaginn í síðustu viku. Þá átti að flytja hann til Bandaríkjanna til að ávíta hann, eftir að hann lenti í áflogum við lögregluþjóna í Suður-Kóreu. Honum tókst að flýja á flugvellinum og kom sér í skoðunarferð um þorpið Panmunjom á sameiginlega öryggissvæðinu svokallaða við landamærin.

Þar hljóp hann viljandi yfir landamærin og var handsamaður af hermönnum. Síðan þá hefur ekkert frést af honum og yfirvöld í Norður-Kóreu hafa neitað að svara fyrirspurnum Sameinuðu þjóðanna, sem fara með stjórn öryggissvæðisins.

Þá hafa ríkismiðlar einræðisríkisins ekkert sagt um hermanninn.

AP fréttaveitan hefur eftir breska herforingjanum Andrew Harrison, sem er næstráðandi á öryggissvæðinu, að sambandi hafi náðst við Norður-Kóreumenn og að áhersla á lögð á að fá upplýsingar um King. Að öðru leyti vildi hann ekki tjá sig fyrir utan það að segja að hann væri vongóður fyrir viðræðurnar.

Afar sjaldgæft er að fólk laumi sér frá Suður-Kóreu til Norður-Kóreu. Mun algengara er að fólk flýi til suðurs. Um hundrað þúsund manns sækja Panmunjon heim á ári hverju og fara þar í kynningarferðir en þær hafa verið stöðvaðar í bili.

Mikil spenna er á Kóreuskaga, eins og hefur verið lengi. Undanfarna daga hefur tveimur bandarískum kafbátum verið siglt til hafnar í Suður-Kóreu og nokkrum eldflaugum hefur verið skotið frá Norður-Kóreu, en það er í trássi við samþykktir Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.


Tengdar fréttir

Virða að vettugi allar til­raunir til sam­skipta

Norður-kóresk yfir­völd hafa virt að vettugi allar til­raunir þeirra banda­rísku til þess að eiga í sam­skiptum vegna banda­ríska her­mannsins sem nú er í haldi Norður-Kóreu. Spennan á Kóreu­skaga er gríðar­leg og sam­skiptin lítil sem engin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×