Handbolti

Sádarnir bjóða Mikkel Hansen risasamning

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sádi-arabískt félag hefur boðið Mikkel Hansen gull og græna skóga fyrir að spila með því.
Sádi-arabískt félag hefur boðið Mikkel Hansen gull og græna skóga fyrir að spila með því. getty/Mateusz Slodkowski

Sádi-arabískt félag hefur boðið dönsku handboltastjörnunni Mikkel Hansen sannkallaðan risasamning.

Svo virðist sem Sádarnir séu einnig komnir með áhuga á handbolta en fjölmargir sterkir fótboltamenn hafa flykkst til landsins undanfarin misseri.

Danski handboltagúrúinn Rasmus Boysen vakti í gær athygli á Twitter-færslu túniska blaðamannsins Ramzi Ben Taher þar sem hann sagði að ónefnt félag í Sádi-Arabíu hefði boðið Hansen samning að verðmæti 790 milljóna króna.

Ef Hansen gengi í raðir sádi-arabíska félagsins yrði hann langlaunahæsti handboltamaður sögunnar enda þekkjast upphæðir sem þessar varla í íþróttinni.

Hansen er samningsbundinn Álaborg í heimalandinu. Hann lék ekkert með liðinu seinni hluta síðasta tímabils eftir að hann fór í kulnun.

Hansen, sem er 35 ára, lék lengi með Paris Saint-Germain og hefur þrisvar sinnum orðið heimsmeistari og einu sinni Evrópumeistari með danska landsliðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×