Fótbolti

Stærsta blað Svía: Þær norsku eru dramadrottningar þessa HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sophie Roman Haug svekkir sig yfir glötuðu færi en þau hafa verið mörg í fyrstu tveimur leikjunum á HM.
Sophie Roman Haug svekkir sig yfir glötuðu færi en þau hafa verið mörg í fyrstu tveimur leikjunum á HM. AP/Juan Mendez

Norðmenn eiga enn eftir að skora mark á heimsmeistaramóti kvenna í fótbolta þrátt fyrir að hafa spilað tvo heila leiki og vera fullt af sóknarleikmönnum úr bestu liðum Evrópu.

Lið með stórstjörnur Lyon, Barcelona og Chelsea virkar ráðalaust og bitlaust inn á vellinum þegar kemur að því að finna leiðina í mark mótherjanna.

Sumir hafa sett spurningarmerki við liðsandann í norska liðinu og stærsta blað Svía var ekkert að skafa af því eftir jafntefli Norðmanna í dag.

Blaðamaður Aftonbladet, stærst blaðs Svíþjóðar, segir fjaðrafokið utan vallar vera að taka orku og athygli frá því sem á að skipta mestu máli inn á vellinum.

„Noregur er áfram í neðsta sætinu í slakasta riðli keppninnar. Stjörnuleikmaðurinn Caroline Graham Hansen er í fýlu út í landsliðsþjálfarann Hege Riise. Útlitið er ekki allt of gott hjá nágrönnum okkar. Stærstu dramadrottningar á þessu HM verða að loka á hávaðann og hugsa um hvað þær þurfa að gera í lokaleiknum ætli þær sér áfram,“ skrifaði blaðamaður Aftonbladet.

Umfjöllunin hefur vakið athygli í Noregi og þar á meðal hjá norska ríkisútvarpinu.

„Leikurinn á móti Sviss var ekki leiðinlegur en það var meira skemmtanagildi í eftirmála leiksins. Norðmenn þurfa að glíma við krísu það sem eftir lifir vikunnar,“ skrifaði blaðamaður Aftonbladet.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×