Það var árið 2000 og við fögnuðum þúsund ára kristnitöku á Íslandi. Haldin var mikil hátíð. Ég fékk að flytja bæn í útimessu á Laugardalsvelli sem fulltrúi Fríkirkjunnar í Reykjavík og mikið var kalt en ég var stolt af því að fá að taka þátt í þessum viðburði. Bænir mínar voru um heilbrigði þjóðar og heilbrigðis starfsmenn. Þá var mér hugsað til fyrrum biskupa kirkjunnar eins og Brynjólfs biskups í Skálholti og Sigurbjörns Einarssonar sem var eins og árlegur gestur heima í stofu í minni bernsku og ekki mátti anda þegar hann talaði til okkar í gegnum viðtækin à aðfangadagskvöld.
Síðan eru liðin mörg ár og biskupar hafa gerst brotlegir.
Þjóðkirkjan hefur síðan fengið meira frelsi frá ríkisvaldinu og ræður nú yfir fjármálum og starfsmannahaldi sínu. Eða er það svo? Prestar eru ekki lengur embættismenn. Aðhaldsaðgerðir stofnunarinnar hafa verið töluverðar þar sem sóknir eru sameinaðar og eignir seldar. Biskupsstofa hefur flutt starfsemi sína all nokkrum sinnum à undanförnum árum.
Upp er komið einkennilegt mál um framlengingu á ráðningu biskups. Hver bendir á annan og gömlum og nýjum lögum er kennt um.
Nú er það vandi þjóðkirkjunnar að vilja bæði vera óháð ríkisvaldinu og sjálfstæð stofnun á sama tíma, en kenna samt löggjöf ríkisins um embættisstöðu biskups. Fjölmiðlar reyna að fá svör og til svara eru löglærðir menn og konur og aðrir sem kenna ríkis löggjöf um. Kirkjuþing hefur eitthvert hlutverk en það er líka óljóst. Allir óþarfa forystumenn kirkjunnar þegja þunnu hljóði, biskup og vígslubiskupar. Almenningur skynjar að eitthvað er óhreint í þessu pokahorni.
Nú þegar eldar brenna hér à Íslandi og jörðin stikknar um allan heim vegna loftslags vandamála. Stríð geisar í Evrópu þurfum við að treysta Guði og iðka okkar trú sem aldrei fyrr. Mikið er èg glöð að tilheyra Fríkirkjunni í Reykjavík, trúfélagi sem þarf enga biskupa.
Höfundur er læknir.