Lífið

Edda Björg og Vigdís Hrefna ráðnar sem dósentar

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Edda Björg og Vigdís Hrefna hafa báðar átt farsælan feril sem leikkonur.
Edda Björg og Vigdís Hrefna hafa báðar átt farsælan feril sem leikkonur.

Leikkonurnar Edda Björg Eyjólfsdóttir og Vigdís Hrefna Pálsdóttir hafa verið ráðnar sem dósentar við sviðslistadeild Listaháskóla Íslands.

Frá þessu er greint í tilkynningu frá LHÍ.

Segir þar að Edda Björg muni gegna hlutverki fagstjóra leikaranáms á haustönn 2023 og Vigdís Hrefna muni gegna sama hlutverki á vörönn 2024.

„Edda Björg Eyjólfsdóttir útskrifaðist árið 1998 með leikarapróf frá Leiklistarskóla Íslands. Frá því að hún lauk leiklistarnámi fyrir 25 árum hefur hún leikið í fjölda sviðsverka, flestum í Þjóðleikhúsinu eða Borgarleikhúsinu. Hún hefur meðal annars leikið veigamikil hlutverk í Hamingjudagar, Ríkharður III, Kartöfluæturnar, Haukur og Lilju, 4:48 Psychosis, Kardemommubæinn, Leg og Túskildingsóperunni. Hún hefur leikið í fjölda sjónvarpsþáttaraða, kvikmynda og oft tekið þátt í áramótaskaupinu,“ segir í tilkynningu um Eddu Björgu.

„Vigdís Hrefna Pálsdóttir lauk MA gráðu í Theatre Making frá University of Kent árið 2020 og MA gráðu í Musical Theatre, frá Royal Conservatoire of Scotland árið 2007. Hún útskrifaðist með BFA gráðu í leiklist frá Listaháskóla Íslands árið 2002. Frá því Vigdís Hrefna útskrifaðist sem leikari fyrir rúmum tuttugu árum hefur hún leikið í fjölda sviðsuppsetninga, flestum í Þjóðleikhúsinu þar sem hún er fastráðin leikkona,“ segir í tilkynningu um Vigdísi Hrefnu. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×