Hinata Miyazawa skoraði tvö marka Japans og er orðin markahæst á mótinu með fjögur mörk, en Japan vann alla þrjá leiki sína í riðlakeppninni og það án þess að fá á sig mark, með markatöluna 11-0.
Japan mætir því Noregi í 16-liða úrslitunum en Spánn mætir Sviss, sigurliði A-riðils.
Japanar refsuðu Spánverjum ítrekað með skyndisóknum í fyrri hálfleik og voru 3-0 yfir að honum loknum.
Miyazawa skoraði fyrst á tólftu mínútu eftir frábæra stungusendingu Jun Endo, lagði svo upp mark fyrir Riko Ueki sem endurgalt greiðann þegar Miyazawa kom Japan í 3-0 á 40. mínútu.
Spánn sá aldrei til sólar í seinni hálfleik og Minami Tanaka gerði fjórða mark Japans með laglegum hætti tíu mínútum fyrir leikslok.
Í hinum leiknum í C-riðli vann Sambía 3-1 sigur gegn Kosta Ríka en liðin voru bæði stigalaus fyrir leikinn og áttu ekki lengur von um að komast áfram í 16-liða úrslitin.
Nú klukkan 10 ráðast svo úrslitin í B-riðli þar sem Kanada og Ástralía mætast annars vegar, og geta aðeins komist bæði áfram ef þau gera jafntefli og Nígería, topplið riðilsins, tapar gegn Írlandi sem er úr leik.