Í umfjöllun New York Times um málið kemur fram að Jack Smith, sérstakur saksóknari á vegum bandaríska dómsmálaráðuneytisins, hafi lagt fram kæruna. Þetta er í þriðja sinn sem Trump er ákærður á þessu ári.
Trump er gefið þrennt að sök. Í fyrsta lagi að hafa svikið (e. defraud) Bandaríkin, í öðru lagi að hafa komið í veg fyrir rannsókn opinberra aðila og í þriðja lagi að hafa gert tilraunir til þess að svipta þjóðina ákvörðunarrétti sínum sem henni er tryggður í bandarísku stjórnarskránni.
Segir meðal annars í kærunni að Trump hafi nýtt sér blekkingar til þess að draga úr trausti á forsetakosningunum. Þá er sex einstaklingar sagðir hafa aðstoðað forsetann, en samkvæmt umfjöllun New York Times kemur ekki fram hverjir það eru í kærunni.
Þetta er í fyrsta sinn í sögunni sem fyrrverandi forseti Bandaríkjanna hefur verið ákærður fyrir slíkt. Trump er í framboði og leitast nú eftir því að tryggja sér tilnefningu Repúblikanaflokksins vegna forsetakosninga árið 2024.