Fótbolti

Mané og Ronaldo orðnir liðsfélagar

Sindri Sverrisson skrifar
Sadio Mané skrifaði undir fjögurra ára samning við sitt nýja félag.
Sadio Mané skrifaði undir fjögurra ára samning við sitt nýja félag. Getty/Robbie Jay Barratt

Sadio Mané er nýjasta fótboltastjarnan sem skrifar undir samning við félag í Sádi-Arabíu. Hann var í gær kynntur til leiks hjá Al-Nassr og verður þar liðsfélagi Cristiano Ronaldo.

Mané, sem er 31 árs gamall, náði ekki að slá í gegn hjá Bayern München á sinni einu leiktíð með þýsku meisturunum eftir farsæl ár hjá Liverpool.

Senegalinn skoraði 12 mörk í 38 leikjum fyrir Bayern en naut sín ekki hjá félaginu og lenti til að mynda í átökum við liðsfélaga sinn Leroy Sané eftir tap í leik í Meistaradeild Evrópu.

Talið er að Bayern hafi fengið nálægt þeim 35 milljónum punda sem félagið greiddi fyrir Liverpool í fyrra.

Samningur Mané við Al-Nassr er til fjögurra ára. Nýja félagið hans fékk Ronaldo til sín síðasta vetur og það var upphafið að streymi heimsfrægra leikmanna í sádiarabísku deildina. Félagið hefur síðan þá einnig fengið króatíska miðjumanninn Marcelo Brozovic, brasilíska bakvörðinn Alex Telles og Fílabeinsstrendinginn Seko Fofana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×