Erlent

Unga­barn lést eftir að hafa verið skilið eftir í heitum bíl

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Andlátið er það fimmtánda í Bandaríkjunum á árinu sem stafar af því að barn er skilið eftir í heitum bíl.
Andlátið er það fimmtánda í Bandaríkjunum á árinu sem stafar af því að barn er skilið eftir í heitum bíl. Getty

Eins árs gömul stúlka lést í bænum Smithtown í New York í gær eftir að amma hennar skildi hana eftir í bifreið sinni meðan hún fór í vinnuna. 

Samkvæmt frétt CNN gleymdi amma barnsins að fara með það í leikskólann áður en hún fór í vinnuna á mánudag, þar sem hún var í átta klukkustundir.

Eftir vinnudaginn hafi hún keyrt á leikskólann þar sem hún uppgötvaði að barnið var enn í heitum bílnum. Stúlkan var flutt á sjúkrahús þar sem hún var úrskurðuð látin.

Hiti í bænum á mánudag náði rúmlega 28 gráðum. Andlát stúlkunnar er það fimmtánda í Bandaríkjunum það sem af er ári, sem stafar af því að barn er skilið eftir í heitum bíl. 

Samkvæmt Öryggismálastofnun þjóðvega í Bandaríkjunum getur hitastig inni í bíl mælst allt að ellefu gráðum heitara en er úti á einungis tíu mínútum. Þá hækki líkamshiti barns þrisvar sinnum hraðar en líkamshiti fullorðins einstaklings. Barn geti dáið þegar líkamshiti þess nær 41 gráðu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×