Innlent

Lang­þreytt á eitraðri bjarnar­kló eftir að tvö barna­börn brenndust

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Þegar tólf ára barnabarn Ingibjargar brann á höndum árið 2017 þekkti  fjölskyldan ekki til þess hve hættuleg bjarnarklóin getur verið. Síðan hefur lítið gerst og bjarnarklóin enn til trafala.
Þegar tólf ára barnabarn Ingibjargar brann á höndum árið 2017 þekkti  fjölskyldan ekki til þess hve hættuleg bjarnarklóin getur verið. Síðan hefur lítið gerst og bjarnarklóin enn til trafala.

Íbúi í vestur­bæ Reykja­víkur segist vera orðin lang­þreytt á bjarnar­kló sem gert hefur sig heima­komna í garðinum hennar. Barna­barn hennar brenndist á fótum við garð­vinnu en sex ár eru síðan annað barna­barn hennar brenndist illa á höndum vegna plöntunnar. Hún segist þreytt á því sem hún segir slæma um­hirðu bensín­stöðvarinnar N1 um lóð fyrir­tækisins, þaðan sem hún segir bjarnar­klóna koma.

„Ég verð bara að segja það alveg eins og er að mér varð illa brugðið. Að barna­börnin mín særist sí­endur­tekið af þessu og það er eins og þeir hjá N1 hafi engan á­huga á að bæta úr málunum,“ segir Ingi­björg Dal­berg, íbúi við Hofs­valla­götu í vestur­bæ Reykja­víkur, í sam­tali við Vísi. Að sögn Ingi­bjargar er lóð nær­liggjandi bensín­stöðvar undir­lögð af plöntunni.

Sex­tán ára barna­barn hennar var að hjálpa henni við garð­vinnu í gær, í­klædd hlífðar­fatnaði en brá sér í ör­skamma stund í stutt­buxur vegna hitans. Hún hafi vitað af bjarnar­klónni og því farið að öllu með gát, en allt kom fyrir ekki.

Sextán ára barnabarn Ingibjargar brenndist á fótum eftir stutta stund í stuttbuxum. Ingibjörg Dalberg

„Ætli þetta hafi ekki verið rétt rúm­lega tíu mínútur. Hún losaði sláttu­vélina í pokann og þá hefur eitt­hvað greini­lega snert á henni hnéin og þá kemur þetta daginn eftir,“ segir Ingi­björg. Hún segist hafa rætt málið við for­svars­menn N1 sem ekki hafi gefið málinu neinn gaum.

„Ég hef farið á hverju einasta ári í að minnsta kosti tíu ár að ræða þetta við þá. Eða sent þeim bréf í höfuð­stöðvarnar og ætla þeim ekkert illt en þeir segjast alltaf ætla að skoða þetta en svo gerist ekkert. Það er allt blómstrandi hjá þeim og fýkur svo inn á lóðina hjá mér.“

Ingibjörg segist vera orðin langþreytt á nokkurra ára baráttu við bjarnarklóna.

Saknar þess að borgin sinni málunum

Eftir að bruna­sár 12 ára gamals barna­barns Ingi­bjargar á höndum komust í fréttirnar árið 2017 skar Reykja­víkur­borg upp her­ör gegn bjarnar­klónni, líkt og frétta­stofa greindi frá á sínum tíma. Ingi­björg segist sakna þess að borgin sinni málunum.

„Það er allt í kafi í þessu við strætó­skýlið sem er hér rétt hjá. Það er erfitt fyrir okkur íbúa að fyrir­tæki líkt og N1 og borgin komist upp með það að gera ekkert í málunum þannig að þetta smitast svona á milli. Þegar svona planta kemst inn á lóðina að þá festist hún í jarð­vegnum. Ætli gras­flötin mín sé ekki orðin 80 prósent plantan og 20 prósent gras, þannig að garðurinn er alveg undir­lagður af þessari plöntu.“

Ingi­björg segist af illri nauðsyn stundum hafa gripið til sinna eigin ráða og farið inn á lóð N1 og klippt blómin af plöntunni til að koma í veg fyrir að hún dreifi sér frekar.

„Ég hef ekki haft neitt val, vegna þess að þeir hlusta ekkert. Þeir hafa stundum sent garð­yrkju­menn síðustu ár en þeir taka aldrei upp rótina, sem nær lengst niður í jörðina. Skrúð­garð­a­meistari sem við höfum rætt við hefur sagt okkur að það þurfi að skipta al­gjör­lega um jarð­veg, skipta um allt saman.“

Ingibjörg segir forsvarsmenn N1 ekki hafa gert neitt í bjarnarklónni á lóð sinni í vesturbæ. Ingibjörg Dalberg



Fleiri fréttir

Sjá meira


×