Newcastle hafði orðið að sætta sig við 2-0 tap gegn Manchester United á Wembley í úrslitaleik deildabikarsins á síðustu leiktíð, en fagnaði svo sigri í deildarleik liðanna á St James‘ Park í apríl. Sá sigur hjálpaði Newcastle að enda í 4. sæti ensku úrvalsdeildarinnar og tryggja sér sæti í Meistaradeild Evrópu í fyrsta sinn í tvo áratugi.
Fyrir leikinn í Newcastle breytti Howe út af vananum í ræðu sinni í búningsklefanum og vitnaði í Ten Hag sem hafði gagnrýnt Newcastle og sagt liðið vera pirrandi andstæðing sem reyndi allt til að hægja á leiknum.
„Af hverju er ég að segja ykkur þetta? Ef þeir vilja hraðan leik, komandi hingað, þá skulum við f***ing gefa þeim hann. Við skulum vera ákafir í öllu sem við gerum, og gera þetta að hröðum leik. Áfram nú!“ sagði Howe eins og sjá má í klippunni hér að neðan.
EXCLUSIVE CLIP
— Amazon Prime Video Sport (@primevideosport) August 3, 2023
Eddie Howe found extra motivation for his players when @NUFC faced Man Utd 5 weeks after their cup final clash
We Are Newcastle United, coming to Prime Video from 11 August pic.twitter.com/QvHLcfX9PK
Ræðan virðist hafa borið árangur því Newcastle vann 2-0 eftir mörk frá Joe Willock og Callum Wilson.
Eftir leikinn nýtti svo samfélagsmiðladeild Newcastle tækifærið til að skjóta á Ten Hag, með skrifum um að ekki hefði nú þurft að tefja neitt í þessum leik og að sumum gæti þótt „pirrandi“ að mæta Allan Saint-Maximin sem átti frábæran leik.
Ummæli Ten Hag féllu í aðdraganda úrslitaleiks deildabikarsins en þá var boltinn að meðaltali aðeins búinn að vera í leik í 51 mínútu og 47 sekúndur í leikjum Newcastle. Það var næstminnsti tími hjá liði í ensku úrvalsdeildinni, á eftir Leeds, og höfðu stjórar Liverpool og Arsenal einnig lýst óánægju sinni með leikaðferð Newcastle-liðsins, eftir því sem fram kemur í grein Daily Mail.
Þættirnir um Newcastle koma út á Amazon Prime 11. ágúst, degi áður en liðið mætir Aston Villa í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar. United mætir hins vegar Wolves í fyrsta leik, 14. ágúst.