Erlent

Báru kennsl á 27 ára gamlar líkams­leifar á Gil­go ströndinni

Árni Sæberg skrifar
Karen Vergata fannst í hlutum yfir margra ára tímabil á Gilgo ströndinni.
Karen Vergata fannst í hlutum yfir margra ára tímabil á Gilgo ströndinni. John Minchillo/AP

Lögregluyfirvöld í Suffolk-sýslu í New York tilkynntu í dag að tekist hefði að bera kennsl á líkamsleifar sem fundust á Gilgo ströndinni á árunum 1996 til 2011. Fyrst fundust fætur í poka og svo bein á árunum 2010 og 2011. Líkamsleifar fjögurra kvenna sem Rex Heuermann er grunaður um að hafa myrt fundust á sama stað.

Tilkynnt var á blaðamannafundi nú síðdegis að líkamsleifarnar hafi tilheyrt Karen Vergata, 34 ára gamalli vændiskonu sem hvarf á Valentínusardaginn árið 1996. Hún hefur hingað til verið þekkt sem Jane Doe númer sjö, en hún fannst ásamt tíu öðrum á Gilgo ströndinni.

„Ég tel að það sé mikilvægt að við minnumst og heiðrum ekki aðeins ungfrú Vergata heldur öll fórnarlömbin á Gilgo ströndinni,“ sagði Ray Tierney saksóknari Suffolk-sýslu á blaðamannafundinum. 

Hann sagði að enginn væri grunaður um að hafa myrt Vergata að svo stöddu. Rex Heuermann, sem kvæntur er íslenskri konu sem sótt hefur um skilnað, hefur verið ákærður fyrir að myrða þrjár konur sem fundust á ströndinni og er grunaður um að hafa banað þeirri fjórðu.


Tengdar fréttir

Skæður raðmorðingi loks gómaður

Lögreglan í New York hefur handtekið mann sem grunaður er um aðild að „Morðunum á Gilgo Beach“ svokölluðu. Hann er talinn hafa myrt nokkrar konur en líkamsleifar ellefu manns hafa fundist við rannsókn morðanna frá árinu 2010.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×