Eftirlitsstofnunin Datatilsynet komst á dögunum að þeirri niðurstöðu að Meta væri óheimilt að safna persónuupplýsingum einstaklinga, til að mynda upplýsingum um staðsetningu þeirra, í þeim tilgangi að sníða auglýsingar að hverjum og einum notanda.
Meta fékk frest til 4. ágúst til að sýna fram á að gerðar hefðu verið breytingar til að mæta niðurstöðunni en fyrirtækið segir umræddar breytingar, sem fela meðal annars í sér að notendur verða beðnir leyfis, munu taka einhverja mánuði.
Tobias Judin, yfirmaður alþjóðasviðs Datatilsynet, segir þetta hins vegar óásættanlegt og að fyrirtækið þurfi að láta af allri söfnun persónuupplýsinga þar til notendur geta gefið upplýst samþykki.
Dagsektirnar verða í gildi til 3. nóvember en þá mun stofnunin geta farið fram á það við European Data Protection Board að þær verði gerðar varanlegar. Ef EDPB leggur blessun sína yfir ákvörðun Datatilsynet gætu afleiðingarnar orðið þær að ákvörðunin næði til allrar Evrópu.
Judin segir að á meðan Meta grípi ekki til viðeigandi ráðstafana sé það að brjóta gegn réttindum fólks.