Í myndbandi segist Gunter meðal annars hafa auðmjúkur hafa þegið boð Donald Trump, þáverandi Bandaríkjaforseta, að gerast sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi. Þar segist hann hafa „barist við djúpríkið, barist við Kína og barist gegn rússneskum áhrifum á norðurslóðumׅ“, auk þess að hann leggur áherslu á „siðferðisþrek“ sitt og „heilindi“.
Gunter fer í myndbandinu fögrum orðum um Trump og segist ætla að berjast fyrir hann og hans stefnumálum, þar með talið að klára múr á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó. Hann segir ennfremur að Joe Biden Bandaríkjaforseti hafi brugðist bandarísku þjóðinni.
Gunter heitir því í myndbandinu að skapa störf í Nevada, lækka bensínverð og sem læknir, laga heilbrigðiskerfið. Hann hefur lengi starfað sem húðsjúkdómalæknir, verið virkur í Repúblikanaflokknum og lét á sínum tíma mikið fé til stuðnings framboðs Trump.
Gunter var sendiherra hér frá 2019 til janúar 2021. Hann reyndist mjög umdeildur í störfum sínum, ekki síst eftir að fréttir bárust af því að hann vildi fá að bera byssu hér á landi.
Í skýrslu innra eftirlits utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna var máluð afar dökk mynd af starfsemi sendiráðs Bandaríkjanna hér á landi undir stjórn Gunter. Kom þar fram að starfsmenn sendiráðsins hafi óttast hann og samskipti Íslands og Bandaríkjanna hafi hríðversnað vegna hans.