Innlent

„Kæmi mér ekki á ó­vart ef land­gangurinn væri ó­nýtur“

Atli Ísleifsson skrifar
Atvikið átti sér stað um klukkan sjö í morgun.
Atvikið átti sér stað um klukkan sjö í morgun. Aðsend

Miklar skemmdir urðu á landganginum sem notaður er til að koma farþegum í og úr Herjólfi í Vestmannaeyjahöfn eftir að flutningabíl var ekið á hann í morgun.

„Það kæmi mér ekki á óvart ef landgangurinn væri ónýtur, en við erum að meta skemmdirnar,“ segir Hörður Orri Grettisson, framkvæmdastjóri Herjólfs, í samtali við Vísi. Það var mbl sem greindi fyrst frá málinu.

Hörður Orri segir að atvikið hafi átt sér stað um klukkan sjö í morgun, í fyrstu ferð. Til stóð að aka flutningabílnum um borð í ferjuna.

„Sem betur fer var enginn að ganga landganginn þegar þetta gerðist. En nú þarf að kalla til fulltrúa frá tryggingafélögum til að meta þetta allt saman. Það verður síðar að koma í ljós hvað við gerum, hvort hægt sé að gera við þennan eða hvað. Á meðan komum við gangandi í og úr skipinu um bíldekkið,“ segir Hörður Orri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×