Skoðun

Skrifum síðasta kaflann í myrkri sögu kjarna­vopna

Andrés Ingi Jónsson skrifar

Í dag köllum við eftir kjarnavopnalausri veröld. Það er eina framtíðarsýnin sem vit er í – og eitthvað sem m.a.s. kjarnavopnabandalagið Nató segist stefna að. Því miður skortir mjög á markviss skref í þá áttina.

Ein af vonarglætunum þessa dagana er TPNW, Samningur Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnavopnum. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur gefið það skýrt út að hún ætli ekki að gerast aðili að þessum mikilvæga afvopnunarsamningi. Hér flækist Natóaðildin fyrir, enda virðist það meira í orði kveðnu sem bandalagið stefnir að kjarnavopnalausri veröld.

Þó að ríkisstjórnin telji að Ísland geti ekki gerst aðili að TPNW, þá verður hún að finna kjarkinn til að tala fyrir afvopnun af þeim styrk sem hún gæti svo hæglega gert. Eitt getur hún gert – algjörlega áreynslulaust – og það er að senda áheyrnarfulltrúa til að eiga uppbyggilegt samtal við aðildarríki samningsins. Það gerðu fjögur Natóríki í fyrra – Þýskaland, Noregur, Holland og Belgía – en Ísland tók harðlínuafstöðu gegn fundinum og sat heima.

Nú er upplagt að endurskoða þá afstöðu ríkisstjórnarinnar: Í lok þessa árs er aftur fundur aðildarríkja Samnings Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnavopnum. Krefjumst þess að fulltúar Íslands mæti þangað og verði í salnum með þeim sem eru að skrifa lokakaflann að sögunni sem byrjaði með árásunum á Hiroshima og Nagasaki.

Höfundur er þingmaður Pírata.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×