Enski boltinn

Tottenham samþykkti tilboð í Kane

Sindri Sverrisson skrifar
Harry Kane er markahæsti leikmaður í sögu Tottenham.
Harry Kane er markahæsti leikmaður í sögu Tottenham. Getty

Einni stærstu félagaskiptasögu sumarsins í fótboltanum gæti verið að ljúka því enska úrvalsdeildarfélagið Tottenham hefur samþykkt tilboð í framherjann Harry Kane.

Það er þýski risinn Bayern München sem lagði fram tilboðið. Hinn virti miðill The Athletic greinir frá þessu og vísar í heimildamenn í Þýskalandi.

Tilboðið nemur 100 milljónum evra, jafnvirði 86,4 milljóna punda eða 14,5 milljarða króna.

Kane, sem er þrítugur, þarf núna að ákveða endanlega hvort að hann vill ganga í raðir Bayern en samkvæmt The Athletic hefur honum liðið vel hjá Tottenham og undir stjórn nýja stjórans Ange Postecoglou. Óljóst sé hvernig hann bregðist við núna.

Kane á aðeins eitt ár eftir af samningi sínum við Tottenham en félagið hefur reynt að fá hann til að skrifa undir nýjan samning, án árangurs og þess vegna hefur félagið reynt að selja hann í sumar.

Kane varð á síðustu leiktíð markahæsti leikmaður í sögu Tottenham og næstmarkahæsti leikmaður í sögu ensku úrvalsdeildarinnar, eftir að hafa tekið fram úr Jimmy Greaves og Wayne Rooney. 

Hann hefur skorað 213 mörk í ensku úrvalsdeildinni og á því mjög raunhæfa möguleika á að slá met Alans Shearer, sem skoraði 260 mörk, en það breytist vissulega ef Kane kveður deildina og heldur til Þýskalands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×