Bazoum er í stofufangelsi í forsetahöllinni en herforingjastjórnin hefur ekki gefið uppi um ástand réttkjörins forseta landsins. Stjórnmálaflokkur forsetans fullyrðir að honum sé haldið við „grimmilegar“ og „ómannúðlegar“ aðstæður ásamt eiginkonu hans og syni. Þau hafi hvorki aðgang að rennandi vatni, rafmagni, ferskum matvælum eða heilbrigðisþjónustu.
Antonio Guterres, framvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, segist hafa áhyggjur af Bazoum sem búi við „hörmulegar“ aðstæður. Bandaríska utanríkisráðuneytið lýsti einnig áhyggjum af heilsu og öryggi Bazoum og fjölskyldu hans, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.
„Eftir því sem tíminn líður og honum er haldið í einagrun fara áhyggjur okkar af stöðunni vaxandi,“ sagði Matthew Miller, talsmaður utanríkisráðuneytisins.
Efnahagsbandalag Vestur-Afríkuríkja (ECOWAS), sem hefur gefið valdaræningjunum frest til sunnudags til þess að skila völdunum aftur í hendur Bazoum, ætlar að funda um málefni Nígers í dag. Það hefur hótað hernaðaríhlutun verði stjórnarskrárbundnu stjórnarfari ekki komið á aftur í landinu. Malí og Búrkína Fasó hafa þó lýst yfir stuðningi við valdaræningjana en þeim er báðum stjórnað af herforingjastjórnum.
Níger hefur verið síðasta áreiðanlega bandalagsríki vestrænna ríkja í baráttu við íslamska öfgamenn á Sahel-svæðinu sunnan Saharaeyðimerkurinnar. Rúmlega 1.100 bandarískir hermenn eru í landinu en framtíð þeirra þar er óljós.