Skoðun

Lýð­ræðis­legur ó­mögu­leiki

Sigurður Páll Jónsson skrifar

Nú reynir formaður Sjálfstæðisflokksins að berja í brestina eða öllu heldur „að fylla uppí gljúfur“ til að halda öndunarvél sitjandi ríkisstjórnar í gangi.

Átök innan ríkisstjórnarinnar voru orðin gríðarleg á haustdögum árið 2019, en þá kom Covid-19 og þríeykið fékk sviðið og ríkistjórnarflokkarnir gátu farið í sóttkví. Eftir kosningarnar árið 2021 var framlengt og ríkisstjórn „hinna breiðu skírskotana“ endurnýjaði límið í ráðherrastólunum. Stjórnarsáttmálinn um að stækka báknið, færa embættismönnum, ráðuneytum og ESB völdin var endurnýjaður.

Lýðræði var fótum troðið eftir að pólitíkin var lögð til hliðar hér á Íslandi eftir kosningarnar árið 2017. Vinstri grænir, framsóknar og Sjálfstæðisflokkur mynduðu ríkisstjórn um nánast ekkert af því sem kjósendum var lofað í kosningabaráttunni, hvorki þá eða 2021. Til að geta setið setið saman á ráðherra bekknum á alþingi þarf ríkisstjórn sem er samansett þvert yfir hinn pólitíska öxul frá vinstri til hægri að sópa öllum stefnumálum hvers flokks fyrir sig út af borðinu.

Í vor fór Alþingi í sumarfrí fyrirvaralaust og öllum ágreiningsmálum sopað út af borðinu. Formaður Sjálftæðisflokksins segir í viðtali í gær að hann hafi verið ósáttur við þetta fyrirvaralausa sumarfrí alþingis, alltaf svo saklaus.

Svo litu pappírar Lindarhvols málsins dagsljósið, Íslandsbankamálið tók á sig nýja mynd og sjávarútvegsráðherra bannaði hvalveiðar korter fyrir vertíð. Reiðilestur nokkra þing og flokksmanna Sjálfstæðisflokksins í greinarskrifum og viðtölum í sumar gáfu til kynna mikla óánægju innan þeirra raða. En svo komu þeir hnípnir til baka og eiginlega báðu afsökunar á sínum pirringi.

Þó ég reikni með að sólin komi upp á austurhimininn í fyrra málið, sem maður efast stundum um miðað við allar þær heimsendaspár sem yfir fréttaheiminn dynja, þá er ríkisstjórnarsólin löngu sest.

Höfundur er varaþingmaður Miðflokksins.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×