Ástandið er einna verst í Hønefoss, um fjörutíu kílómetra norður af Osló, þar sem áin Begna flæðir yfir bakka sína. AP-fréttastofan segir að yfirvöld íhugi nú að rýma hús neðar við ána af ótta við aurskriður. Á fjórða þúsund manns hefur þegar verið gert að yfirgefa heimili sín á svæðinu.
„Við erum stöðugt að reyna að vera nokkrum skrefum á undan. Við erum tilbúin að ýta á enn stærri rauðan hnapp,“ segir Magnus Nilholm, neyðaraðgerðastjóri á Hønefoss-svæðinu.
Ekki er búist við því að sjatna taki í Begnu fyrr en á mánudag í fyrsta lagi.
Eignatjón í flóðunum fram að þessu hefur verið gróflega áætlað um milljarður norskra króna, jafnvirði hátt í þrettán milljarða íslenskra króna. Stífla við vatnsaflsvirkjun í ánni Glommu, þeirri vatnsmestu í Noregi, brast á miðvikudag.