„Við héldum því sem við vorum búnar að gera í sumar. Við höfðum fulla trú á þessu og vera óhræddar. Við ætluðum að gera það sem við gerum best og það er að vinna bikar,“ sagði Nadía Atladóttir eftir leik.
Nadía braut ísinn á 1. mínútu og að hennar mati skipti miklu máli að eiga fyrsta höggið gegn Blikum.
„Það skipti miklu máli að byrja vel og það hjálpaði okkur gríðarlega mikið og skipti miklu máli.“
Breiðablik jafnaði en Víkingur náði aftur forystunni rétt fyrir hálfleik með marki frá Nadíu sem var alveg eins og markið hennar á móti Augnabliki.
„Ég skoraði alveg eins mark á móti Augnablik á mánudaginn og ég gerði nákvæmlega það sama gegn Breiðabliki.“
Nadía fór af velli fyrir Freyju Stefánsdóttur sem skoraði tæplega mínútu síðar og kláraði leikinn endanlega.
„Ég var varla komin út af og Freyja komin inn á og búin að skora. Þetta var geggjað fyrir hana og okkur og þarna vorum við búnar að klára þetta.“
Nadía var afar ánægð með sigurinn og hlakkaði til að fá að fagna bikarmeistaratitlinum með sínu fólki.
„Nú tekur við eitthvað húllumhæ hérna uppi og við ætlum að fagna þessu vel. Það er geðveikt og þvílíkur heiður að vera í þessu félagi. Það er öllu tjaldað til fyrir bæði meistaraflokk karla og kvenna. Það er þvílíkur metnaður í félaginu,“ sagði Nadía Atladóttir og bætti við að allir ættu að koma í Víking.