Hélt að einhver væri að gera sér grikk
Porcha Woodruff hélt að það væri einhver að stríða henni þegar sex lögreglumenn í fullum skrúða bönkuðu upp á hjá henni snemma á fimmtudagsmorgni og tilkynntu henni að hún væri handtekin, grunuð um að hafa stolið bíl á bensínstöð. Porcha var í óðaönn að gefa börnunum sínum, 6 og 12 ára, morgunverð og senda þau í skóla.
Var nálægt því að missa barnið
Hún benti lögregluþjónunum á magann á sér og spurði hvort þeir væru ekki að grínast, hún væri komin átta mánuði á leið. Þeir héldu nú ekki, handjárnuðu hana og stungu henni inn í fangaklefa þar sem hún mátti sitja á steinbekk í 11 klukkustundir, fram að kvöldmat. Henni var sleppt gegn greiðslu 100.000 dala tryggingu, og þá var farið beint með hana á bráðamóttöku. Þar sögðu læknar að hún hefði orðið fyrir ofþornun og að það væri mesta mildi að Porcha hefði ekki misst barnið sitt.
Lögreglan í Detroit hefur tekið í notkun gervigreindarforrit sem er notað til að bera kennsl á fólk sem brýtur af sér og næst á myndir eftirlitsmyndavéla. Í gagnasafni lögreglunnar var 8 ára gömul mynd af Porchu, þar sem hún hafði á sínum tíma ekið með útrunnið ökuskírteini. Gervigreindarforritið sagði að Porcha væri á myndinni þar sem kona sést stela bíl á bensínstöð. Og það var eins og við manninn mælt, lögreglan skundaði heim til hennar og handtók hana. Jafnvel þó að konan á myndinni hafi ekki verið ólétt.
Mistökin snúast alltaf um blökkufólk
Porcha hefur nú stefnt lögreglunni í Detroit fyrir handtökuna. Tvö önnur mál eru nú rekin gegn lögreglunni í borginni af sömu ástæðu. Lögmenn Porchu segja dæmin sanna að myndgreiningarforritin séu mjög ófullkomin og geri ótal mistök, sem alltaf lúti að rangri myndgreiningu á blökkufólki. Það séu því, þegar öllu er á botninn hvolft, innbyggðir fordómar í sjálfri gervigreindinni.