Lífið

Diljá og Celebs endur­gerðu smell eftir Unun

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Celebs, Diljá og Partískrímslið.
Celebs, Diljá og Partískrímslið.

Söngkonan Diljá Pétursdóttir og vestfirska hljómsveitin Celebs hafa gefið út lagið „Ég sé rautt.“ Lagið var upprunalega flutt af rokksveitinni Unun árið 1994.

„Þegar hugmyndin að því að gera ábreiðu af laginu “Ég sé rautt” með Unun kom upp þá lá svo beint við að heyra í hæfileikabúntinu Diljá til þess að ljá klassíska rokklaginu rödd sína,“ segir Valgeir Skorri Vernharðsson, hljómsveitameðlimur og eitt þriggja systkinanna í Celebs. En hin eru Hrafnkell Hugi og Katla Vigdís.

Líkt og flestir muna eftir keppti Celebs í Söngvakeppni Sjónvarpsins í vetur með laginu „Doomsday Dancing“, eða „Dómsdags dans.“ Dilja vann keppnina og keppti fyrir Íslands hönd í Eurovision í Liverpool borg. Djúp vinátta myndaðist á milli keppendanna sem skilar sér meðal annars í þessu samstarfi.

„Ég er mjög spenntur fyrir því hvernig fólk mun taka í þetta lag því mér finnst það hafa heppnast mjög vel,“ segir Gunnar Lárus Hjálmarsson, betur þekktur sem doktor Gunni, höfundur upprunalega lagsins með Unun.

„Ég sé rautt“ verður notað í Vodafone auglýsingu sem kom út í dag en þar er partýskrímslið í aðalhlutverki. Sú skepna var sköpuð fyrir Söngvakeppnina, hönnuð af búningahönnuðinum Tönju Levý í samstarfi við Alexíu Rós Gylfadóttur og Örnu Björg Steinarsdóttur. Partýskrímslið er í raun boðskapur Celebs í hnotskurn; það er allt í lagi að vera smá öðruvísi, það má bara aldrei gleyma að vera forvitinn og hafa það gaman.

Vísir er í eigu Sýnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×