Erlent

Meintir njósnarar Rússa hand­teknir í Bret­landi

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Þau Orlin Roussev, Katrin Ivanova og Bizer Dzhambazov voru öll handtekin vegna gruns um njósnir og brot á lögum um ríkisleyndarmál.
Þau Orlin Roussev, Katrin Ivanova og Bizer Dzhambazov voru öll handtekin vegna gruns um njósnir og brot á lögum um ríkisleyndarmál. BBC/Facebook/LinkedIn

Þrír búlgarskir ríkisborgarar hafa verið handteknir í Bretlandi vegna gruns um að vera njósnarar fyrir Rússa. Þau eru öll tengd íbúð sem er skammt frá herflugvelli í Lundúnum sem konungsfjölskyldan notar.

Hin grunuðu, tveir karlar og ein kona, voru handtekin í febrúar og hafa verið í varðhaldi síðan. Þau hafa verið ákærð fyrir að verið með fölsuð persónuskilríki af illum ásetningi og er talið að þau starfi fyrir öryggissveitir Rússa.

Meðal skilríkjanna eru vegabréf, persónuskilríki og önnur plögg frá Bretlandi, Búlgaríu, Frakklandi, Ítalíu, Spáni, Króatíu, Slóveníu, Grikklandi og Tékklandi.

Í frétt Telegraph eru þau öll þrjú tengd við íbúð í Harrow sem er stutt frá RAF Northolt herflugvellinum. Meðlimir konungsfjölskyldunnar nota flugvöllinn reglulega auk ráðherra og erlendra þjóðarleiðtoga.

Brot á lögum um persónuskilríki

Auk þremenninganna voru tveir aðrir handteknir vegna gruns um brot á lögum um ríkisleyndarmál (e. Official Secrets Act). Hinum tveimur var sleppt úr haldi en þremenningarnir voru ákærðir í febrúar fyrir brot á lögum um persónuskilríki.

Þremenningarnir eru hinn 45 ára Orlin Roussev, búsettur í Great Yarmouth; hinn 41 árs Bizer Dzhambazov, búsettur í Harrow í norðvestur Lundúnum og hin 31 árs Katrin Ivanova sem er búsett í sömu íbúð í Harrow.

Þau hafa öll þrjú búið í Bretlandi í þó nokkurn tíma og unnið þar við ýmis störf. 

Viðskiptasaga í Rússlandi og þjónusta við búlgarska innflytjendur

Roussev á sér viðskiptasögu í Rússlandi og flutti árið 2009 til Bretlands og vann þá í þrjú ár í tæknihlutverki við fjármálaþjónustu. 

Á LinkedIn-síðu Roussev segir að hann hafi átt fyrirtæki sem sérhæfði sig í merkjanjósnum (e. signals intelligence), sem felur í sér hleranir á samskipta- og rafboðum. Þá sagðist hann einnig hafa unnið sem ráðgjafi í búlgarska orkumálaráðuneytinu.

Þeim Dzhambazov og Ivanovu var lýst sem pari af nágrönnum í Harrow. Honum var lýst sem bílstjóra fyrir sjúkrahús og hún lýsir sjálfri sér á LinkedIn sem meinatækni hjá heilbrigðisfyrirtæki í einkaþjónustu. 

Parið flutti til Bretlands fyrir um áratug og rak samtök fyrir búlgarska innflytjendur til að kynna þau fyrir menningu og hefðum bresks samfélags. Samkvæmt búlgörskum skjölum unnu þau einnig fyrir umboðsskrifstofu í Lundúnum sem auðveldaði búlgörskum ríkisborgurum búsettum erlendis að kjósa í búlgörskum kosningum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×