Trump sætir alríkisákæru fyrir að reyna með ólöglegum hætti að snúa við úrslitum kosninganna sem hann tapaði fyrir að verða þremur árum. Jack Smith, sérstaki saksóknarinn, hefur óskað eftir því að réttarhöldin hefjist 2. janúar, tveimur vikum áður en forval Repúblikanaflokksins fyrir forsetakosningarnar hefst. Trump er með pálmann í höndunum í forvali ef marka má skoðanakannanir.
Verjendur Trump lögðu fram sína eigin kröfu fyrir dómi í Washington-borg í gær. Þeir vilja að réttarhöldin hefjist ekki fyrr en í apríl árið 2026, hátt í einu og hálfi eftir forsetakosningar næsta árs, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
„Hagsmunir almennings felast í réttlæti og sanngjörnum réttarhöldum, ekki flýti til sakfellingar,“ sögðu lögmenn fyrrverandi forsetans í greinargerð sinni.
Lögmennirnir segjast þurfu svo langan tíma til undirbúnings vegna þess hversu söguleg réttarhöldin séu og hversu mikið magn sönnunargagna þeir þurfi að plægja í gegnum. Ef þeim ellefu og hálfri milljón blaðsíðna sem gögn málsins telja væri staflað upp næðu þau rúmlega einn og hálfan kílómetra upp í loftið.
Þarf að flakka á milli fjögurra dómsala
Töluvert púsluspil verður fyrir dómstóla hér og þar um Bandaríkin að ákvarða dagsetningar fyrir réttarhöld yfir Trump en hann er nú ákærður í þremur aðskildum málum fyrir utan kosningamálið í Washington-borg. Í New York sætir hann ákæru umdæmissaksóknara fyrir mútugreiðslur til klámstjörnu, í Flórída alríkisákæru fyrir misferli með ríkisleyndarmál og í Georgíu ákæru umdæmissaksóknara fyrir sinn þátt í að reyna að snúa við úrslitum forsetakosninganna þar.
New York Times segir að Trump reyni nú að fresta öllum sakamálunum gegn sér. Ráðgjafar Trump fari ekki leynt með það að hann reyni meðal annars að vinna forsetakosningarnar til þess að komast undan ákærum. Nái hann að fresta málunum fram yfir kosningar og verði hann forseti geti hann annað hvort náðað sjálfan sig eða látið dómsmálaráðherrann drepa málin gegn sér. Það gæti hann þó aðeins gert með alríkismálin tvö.