Hannes skrifaði stuttan pistil á samfélagsmiðla þar sem hann segir að árangur stelpuliðanna okkar í sumar hafi verið kórónaður með því að Kolbrún María Ármannsdóttir var valin í fimm manna úrvalslið B-deilar EM.
„Klárlega besta sumar stúlknalandsliðanna okkar í sögunni þetta sumarið en öll liðin okkar það er U16, U18 og 20 komust í 8-liða úrslit B-deildar EM sem aldrei hefur gerst áður og liðin okkar því á topp 24 í hverjum þessara aldursflokka í Evrópu,“ skrifaði Hannes S. Jónsson.
Honum finnst líka að íslenska þjóðin átti sig ekki alveg á árangri körfuboltalandsliðanna á alþjóðlegum vettvangi.
„Enn einu sinni þar sem árangur landsliða okkar vekur athygli alþjóðlega körfuboltaheimsins en því miður alltof margir Íslendingar sem skilja ekki árangur okkar eigin landsliða og það er bara pínu grátlegt,“ skrifaði Hannes.
Hannes er nú floginn til Manila á Filippseyjum þar sem hann tekur þátt í heimsþingi FIBA en það er haldið í kringum heimsmeistaramótið í körfubolta sem að þessu sinni fer fram í Japan, Indónesíu og á Filippseyjum.