Enski boltinn

Ton­ey rýfur þögnina í opin­skáu við­tali: Situr af sér átta mánaða bann

Aron Guðmundsson skrifar
Ivan Toney var til viðtals í hlaðvarpinu The Diary of a CEO
Ivan Toney var til viðtals í hlaðvarpinu The Diary of a CEO Vísir/Skjáskot

Ivan Ton­ey, leik­maður enska úr­vals­deildar­fé­lagsins Brent­ford hefur í fyrsta sinn tjáð sig um veð­mála­fíkn sína og brot sín á veð­mála­reglum sem sáu til þess að hann var dæmdur í langt bann frá knatt­spyrnu­iðkun.

Í opin­skáu við­tali í hlað­varpinu The Diary of a CEO greinir Ton­ey, sem nú situr af sér átta mánaða bann sökum brota á veð­mála­reglum, frá því að hann sé nú hættur að veðja á leiki og þá segist hann einnig hafa logið að rann­sak­endum í fyrstu yfir­heyrslum.

Á­kærurnar á hendur Ton­ey fyrir brot á veð­mála­reglum voru alls 232 talsins og segist Ton­ey sjálfur ekki ráma í að hafa framið öll brotin sem eru til­greind í á­kærunum. Hann hafi hins vegar gengist við þeim öllum til þess að klára málið af.

„Ég ætlaði mér bara að hafna öllum á­sökunum og hélt að það yrði allt í góðu því þeir myndu ekki finna neitt, en þá sýndu þeir mér allt það sem þeir voru með í höndunum.“

Það að Ton­ey hafi gengist við öllum brotunum mun hafa stytt bannið úr fimm­tán mánuðum niður í átta en hann á erfitt með að sætta sig við ýmis­legt í ferlinu, frá því að fyrstu fréttir birtust í fjöl­miðlum af brotunum skömmu fyrir heims­meistara­mótið í knatt­spyrnu.

Toney í leik með Brentford Vísir/Getty

Stærsta refsingin var að missa af HM

Ton­ey hafði verið á miklu flugi í liði enska úr­vals­deildar­fé­lagsins Brent­ford og voru taldar góðar líkur á því að hann yrði hluti af leik­manna­hópi enska lands­liðsins á HM í Katar.

Á­sakanirnar litu dagsins ljós í fjöl­miðlum og þá varð fljótt ljóst að HM draumur hans væri úti.

„Ég hugsa að þessar á­sakanir, varðandi brot á veð­mála­reglum, spili þar stóra rullu,“ segir Ton­ey sem hefur mikið velt fyrir sér tíma­setningunni á því að or­ómurinn um brot hans fór af stað og svo þegar að á­kveðið var að refsa honum.

Toney í leik með enska landsliðinuVísir/Getty

Þannig að þú telur að þeir hafi hent fréttinni fram á sínum tíma til þess að koma í veg fyrir að þú myndir spila fyrir Eng­land?

„Meðal annars, en einnig til þess að gera þetta að stærri frétt. Það er mín per­sónu­lega skoðun á þessu máli. Ef þú ert með leik­mann, sem er á leiðinni á heims­meistara­mótið með enska lands­liðinu sem er sakaður um brot á veð­mála­reglum, þá er það stærri frétt (heldur en að leik­maður Brent­ford væri sakaður um þau brot).“

„Tíma­setningin engin til­viljun“

Enska lands­liðið spilar undir merkjum enska knatt­spyrnu­sam­bandið sem er einnig með dóms­valdið innan enskrar knatt­spyrnu og setti fram á­kærurnar á hendur Ton­ey.

Maður myndi á­ætla að það hafi sett fram á­kærurnar á þessum tíma­punkti því ef sam­bandið hefði ekki gert það gæti það haft í för með sér af­leiðingar fyrir enska lands­liðið eða álit fólks á liðinu.

„Á­byggi­lega mér finnst tíma­setningin alla­vegana engin til­viljun en að þurfa að eiga bæði við af­leiðingarnar þegar fréttin fer í loftið og svo eftir síðasta tíma­bil þegar að ég var dæmdur í átta mánaða bann svona löngu eftir.

Stærsta refsingin fyrir mig var að missa af tæki­færinu á því að spila á heims­meistara­mótinu. Það særði mig meira. Mér leið mjög illa á þeim tíma­punkti, fannst eins og ein­hver væri að reyna ná sér niður á mér og koma í veg fyrir að ég myndi spila fyrir enska lands­liðið.“

Hann hefur þurft að verma sæti í stúkunni á heimavelli Brentford undanfarið Vísir/Getty

Ton­ey tekur fulla á­byrgð á sínum gjörðum og ætlar sér að koma sterkari til baka þegar að bannið hans rennur út í janúar á næsta ári.

„Það er mikið af efa­semdar­röddum þarna úti sem telja að ég verði ekki sami leik­maðurinn þegar að ég sný til baka og þær hafa rétt fyrir sér. Ég verð ekki sami maður, ég verð enn betri maður en sá sem var að skora öll þessi mörk fyrir bannið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×