Erlent

Banana­erfingi og banda­maður spillts for­seta í aðra um­ferð

Kjartan Kjartansson skrifar
Luisa González fagnar bráðabirgðaniðurstöðum kosninganna í Ekvador. Hún hlaut flest atkvæði en þarf að gera betur í annarri umferð kosninganna í haust.
Luisa González fagnar bráðabirgðaniðurstöðum kosninganna í Ekvador. Hún hlaut flest atkvæði en þarf að gera betur í annarri umferð kosninganna í haust. AP/Dolores Ochoa

Allt stefnir í að kosið verði á milli vinstrisinna og erfingja bananaveldis í annarri umferð forsetakosninga í Ekvador eftir að engum frambjóðanda tókst að tryggja sér hreinan meirihluta í kosningunum þar í gær.

Luisa González úr vinstriflokknum Pólitísku byltingarhreyfingu borgaranna sem mældist með mest fylgi í skoðanakönnunum, hafði hlotið þriðjung atkvæða þegar 85 prósent atkvæða höfðu verið talin í gærkvöldi. Á eftir henni kom Daniel Noboa með rétt tæpan fjórðung atkvæði. Árangur Noboa vakti athygli þar sem hann hafði aldrei mæst hærra en fimmti í könnunum fyrir kosningar, að sögn AP-fréttastofunnar.

Til þess að ná kjöri í gær þurfti frambjóðandi að vinna annað hvort meira en helming atkvæða eða fjörutíu prósent og tíu prósentustiga forskot á næsta mann. Ef til hennar kemur fer síðari umferðin fram í október.

González er lögfræðingur og fyrrverandi þingmaður. Hún gerði mikið úr sambandi sínu við Rafael Correa, fyrrverandi forseta Ekvadors, þrátt fyrir að hann hefði verið fundinn sekur um spillingu og dæmdur í átta ára fangelsi að sér fjarstöddum árið 2020. Hann býr nú í Belgíu.

Noboa er sonur Álvaro Noboa, eiganda bananaræktunar- og útflutningsveldis, sem bauð sig fimm sinnum fram til forseta.

Í þriðja sæti lenti Christian Zurita með sextán prósent. Zurita var ekki formlega á kjörseðlinum en hann tók sæti Fernando Villavicencio sem var skotinn til bana á kosningafundi í höfuðborginni Quito fyrr í þessum mánuði. Morðið varð tilefni til stóraukinnar öryggisgæslu lögreglu- og hermanna á götum borga á meðan á kosningabaráttunni stóð.


Tengdar fréttir

Meintir morðingjar fram­bjóðandans frá Kólumbíu

Sex menn sem voru handteknir vegna morðsins á Fernando Villavicencio, forsetaframbjóðanda í Ekvador, í gær eru kólumbískir ríkisborgarar. Innanríkisráðherra landsins segir að mennirnir tengist skipulagðri glæpastarfsemi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×