Erlent

Fleiri hundraða enn saknað eftir gróður­eldana á Maui

Kjartan Kjartansson skrifar
Íbúar í Lahaina á Maui faðmast. Af þeim tvö þúsund sem var saknað hafa 850 enn ekki fundist.
Íbúar í Lahaina á Maui faðmast. Af þeim tvö þúsund sem var saknað hafa 850 enn ekki fundist. AP/Jae C. Hong

Sveitarstjóri á Maui á Havaíeyjum segir að 850 manns sé enn saknað eftir gróðureldana sem ollu hörmungum á eyjunni í síðustu viku. Joe Biden Bandaríkjaforseti og eingkona hans ætla að kynna sér hamfarasvæðið í dag.

Staðfest er að 114 manns hafi farist í eldunum sem kviknuðu á þriðjudag í síðustu viku. Um tólf hundruð manns sem hafði verið saknað hafa fundist á lífi. Á níunda hundrað er þó enn saknað, að sögn Richards Bissen, sveitarstjóra Maui.

Aðeins er búið að bera kennsl á 27 þeirra látnu til þessa. Ellefu fjölskyldur hafa verið látnar vita af örlögum ástvina sinna, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC. Réttarlæknar og fleiri sérfræðingar hafa verið sendir til Maui til þess að aðstoða við að bera kennsl á líkin. 

Sérfræðingar sem BBC hefur rætt við segja að það gæti tekið mánuði eða ár. Bissen hvetur ættingja þeirra sem er saknað að skila inn lífsýnum til þess að auðvelda starfið.

Biden-hjónin eru væntanleg til Maui síðar í dag. Þau eiga að hitta fólk sem missti ástvini eða eigur í eldunum, þar á meðal íbúa Lahaina, ferðamannastaðar sem brann svo gott sem til grunna, neyðarstarfsmenn og embættismenn á staðnum.


Tengdar fréttir

Yfirmaður almannavarna í Maui segir af sér

Yfirmaður almannavarna á Maui hefur sagt starfi sínu lausu nokkrum dögum eftir að hafa varið ákvörðun sína um að kveikja ekki á viðvörunarsírenum þegar gróðureldar dreifðu sér um eyjuna. Íbúar Maui eru verulega ósáttir að sírenurnar hafi ekki hljóðað.

Byrja að bera kennsl á þau látnu á Maui

Tala látinna í gróðureldunum á Maui náði 106 manns í gær. Yfirvöld eru nú byrjuð að gefa út nöfn á þeim látnu sem hægt hefur verið að bera kennsl á til þessa. Vísbendingar eru komnar fram um að eldarnir kunni að hafa kviknað út frá raflínu í hvassviðri í síðustu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×