Forsetinn var ásamt átján samstarfsmönnum ákærður vegna tilrauna til þess að snúa niðurstöðum forsetakosninga í Georgíu árið 2020. Trump var í um tuttugu mínútur í fangelsinu í gær og var tekin fangamynd af honum. Þá var hann skráður rúm 97 kíló að þyngd og 190 sentímetrar á hæð.
Í umfjöllun Washington Post segir að upplýsingar um þyngd og hæð samstarfsmanna hans hafi ekki reynst réttar. Þannig hafi samstarfsmenn hans líkt og Cathy Latham verið skráð með ljóst hár, á meðan hún sé í raun með grátt hár.
Þá var Rudy Giuliani, lögmaður Trump og fyrrverandi borgarstjóri New York, fyrst skráður 81 kíló að þyngd og 175 sentímetrar að hæð. Síðar sama dag var þeim upplýsingum hins vegar breytt án skýringa og lögmaðurinn þá skráður 180 sentímetrar að hæð og 104 kíló að þyngd.
Washington Post hefur eftir ónefndum aðila sem tengist einum af sakborningum í málinu að starfsfólk lögregluembættisins í Atlanta biðji sakborninga ekki um upplýsingar um hæð og þyngd og þá sé sakborningum ekki gert að stíga á vigt. Viðkomandi hafi fengið skráða þyngd og hæð en segir hana ekki stemma við upplýsingar á ökuskírteininu sínu og segist viðkomandi ekki hafa hugmynd um hvaðan upplýsingarnar komu.
Ítrekað rætt holdafar
Bandaríski miðillinn segir lögregluembættið í Fulton sýslu ekki hafa svarað fyrirspurnum sínum vegna málsins. Þess er getið að áhuginn á hæð og þyngd Bandaríkjaforsetans komi frá hans eigin fullyrðingum um þær en forsetinn hefur auk þess verið duglegur að minnast á holdafar annarra.
Árið 2016 sagðist forsetinn vera 190 sentímetrar á hæð og 107 kíló. Sagðist forsetinn vita að hann yrði að léttast, að því er segir í umfjöllun Washington Post.
Þá sagði læknir sem starfað hafði í Hvíta húsinu í janúar 2018 að forsetinn væri 190 sentímetrar að hæð og 108,4 kíló. Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkaþings, skaut meðal annars á forsetann í heimsfaraldrinum og sagði hann allt of þungan til þess að taka inn umdeilt malaríulyf gegn Covid-19.