Umfjöllun: Stjarnan - Selfoss 3-0 | Frábær innkoma Andreu Mistar innsiglaði sigur Stjörnunnar

Hjörvar Ólafsson skrifar
Andrea Mist Pálsdóttir skoraði tvö marka Stjörnunnar í leiknum. 
Andrea Mist Pálsdóttir skoraði tvö marka Stjörnunnar í leiknum.  Vísir/Anton Brink

Stjarnan bar sigur úr býtum, 3-0, þegar liðið fékk Selfoss í heimsókn á Samsung-völlinn í Garðabæinn í síðustu umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta í dag. Eftir þessa umferð verður deildinni tvískipt í efri hluta og neðri hluta. Sex efstu liðin fara í efri hlutann og fjögur neðstu berjast um að forðast fall úr deildinni.

Sif Atladóttir setti boltann í eigið net skömmu fyrir lok fyrri hálfleiks en markið var dæmt af þar sem dómari leiksins mat það að Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir hefði brotið á Iduni Kristine Jorgensen, markverði Selfoss, í aðdragandum.

Það var svo Ingibjörg Lucia Ragnarsdóttir sem braut ísinn fyrir Stjörnuna í upphafi seinni hálfleiks. Ingibjörg Lucia gerði sigurmark Stjörnunnar þegar liði lagði FH að velli í síðustu umferð deildarinnar. Þetta eru fyrstu tvö mörk Ingibjargar Luciu í deildinni í sumar.

Andrea Mist Pálsdóttir innsiglaði svo sigur Stjörnuliðsins með tveimur mörkum sínum. Andrea Mist byrjaði á því að skora beint úr hornspyrnu um miðbik seinni hálfleiks en hún var þá tiltölulega nýkominn inná sem varamaður. Andrea bætti svo um betur með glæsilegu marki þegar um það bil stundarfjórðungur var eftir af leiknum.

Stjarnan fer inn í keppnina í efri hlutanum í þriðja sæti deildarinnar með 29 stig. Breiðablik er þar fyrir ofan með 34 stig og Þróttur og FH þar fyrir neðan með 28 stig hvort lið. Þór/KA hefur svo 25 stig í sjötta sæti. 

Selfoss er hins vegar í erfiðri stöðu í fallbaráttu deildarinnar en liðið vermir botnsæti deildarinnar með 11 stig. Keflavík er í  næstneðsta sæti með 17 stig. ÍBV og Tindastóll sitja svo í sætunum fyrir ofan fallsvæðið. Tindastóll er í sjöunda sæti með 19 stig og ÍBV í því áttunda með 18 stig. 

Kristján Guðmundsson var sáttur við dagsverkið hjá leikmönnum sínum. Vísir/Diego

Kristján: Þolinmæði var lykilorðið að þessu sinni

„Þetta var þolinmæðisverk og við reyndum að róa spilið okkar af hliðarlínunni og ræddum það vel í hálfleik að við þyrftum að sýna meiri þolinmæði í sóknaraðgerðum okkar. Vorum að spila vel á tveimur af þremur hlutum vallarins eins og við höfum verið að gera lungann úr sumrinu. 

Það var hins vegar svolítið grunn öndun þegar koma að sóknarþriðjungnum í fyrri hálfleik en við löguðum það í þeim seinni. Varamannirnir komu inn af krafti og ég er ofboðslega sáttur við allt liðið í þessum leik,“ sagði Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar. 

„Nú eru bara spennandi vikur fram undan þar sem við spilum þétt. Það eru leikir á sirka þriggja daga fresti í deildinni og svo í Evrópukepninni. Við hlökkum mikið til og það er ljóst að það mun mikið mæða á öllum 18 leikmönnum hópsins og það var gott sjá í þessum leik að við getum fengið framlag frá mörgum leikmönnum“ sagði Kristján um framhaldið. 

Björn: Fórum að gera hluti sem við ætluðum ekki að gera

„Það var mjög svekkjandi að við fórum út úr leikplaninu okkar í upphafi seinni háflleiks eftir mjög flottan fyrri hálfleik. Við sköpuðum vissulega ekki mikið í fyrri hálfleiknum en við vorum að sama skapi þéttar varnarlega og gáfum fá færi á okkur hinum megin,“ sagði Björn Sigurbjörnsson, þjálfari Selfoss. 

„Þess vegna voru vonbrigði að fá á okkur mark eftir að hafa misst boltann á hættulegum stað og beint úr horni í fyrstu tveimur mörkunum. Þetta voru hlutir sem við vorum búnar að fara vel yfir að þyrfti að hafa gætur á. Við getum hins vegar tekið frammistöðuna úr fyrri hálfleiknum með okkur í komandi verkefni,“ sagði Björn enn fremur.

„Nú er bara nýtt upphaf og við munum halda áfram að berjast fyrir lífi okkar. Fram undan eru þrír leikir við lið sem við höfum annað hvort unnið eða spilað hörkuleiki við fyrr í sumar og við förum bara á fulla ferð inn í þá. Það var gott að fá Unni Dóru og Barbáru Sól aftur inn í liðið og vonandi geta þær bætt ofan á flottan leik þeirra að þessu sinni í þeim mikilvægu verkefnum sem eru handan við hornið,“ sagði hann um lífróðurinn sem fyrir höndum er hjá Selfyssingum. 

Björn Sigurbjörnsson, þjálfari Selfoss, er bráttur þrátt fyrir erfiða stöðu Selfossliðsins.Vísir/Hulda Margrét

Af hverju vann Stjarnan?

Stjarnan var mun meira með boltann í leiknum og eftir þolinmæðisverk í fyrri hálfleik náðu heimakonur að finna glufur á þéttum varnarmúr gestanna frá Selfossi í þeim seinni. Stjarnan skapaði mun fleiri færi í þessum leik og vann sanngjarnan sigur.

Hverjar voru bestar á vellinum?

Andrea Mist átti frábæra innkomu inn í leikinn og skoraði tvö mörk á þeim rúma hálftíma sem hún spilaði. Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir var öflug inni á miðsvæðinu og Ingibjörg Lucia gerði vel í markinu sem kom Stjörnunni á bragðið. Sædís Rún Heiðarsdóttir átti svo góðan leik í vinstri bakverðinum.

Hjá Selfossi var Sif Atladóttir að vanda örugg í sínum aðgerðum í hjarta varnarinnar og Barbára Sól Gísladóttir átti fína spretti í framlínunni í endurkomu sinni eftir að hafa glímt við meiðsli.

Hvað gekk illa?

Selfoss náði ekki að finna kraft til þess að koma til baka eftir að liðið hafði gert vel í að halda Stjörnuliðinu í skefjum í fyrri hálfleik. Sóknarleikur Selfoss var fremur bitlaus ef frá er talinn stuttur kafli undir lok fyrri hálfleiks.

Hvað gerist næst?

Stjarnan mætir FH í fyrstu umferð í keppninni í efri hlutanum á föstudaginn í næstu viku en daginn eftir leiða Selfoss og ÍBV saman hesta sína í neðri hlutanum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira