Það var á föstudagsmorgun sem lögreglan greindi frá því að hún hefði í vikunni gert upptæk 9.436 kíló af kókaíni í höfninni í Algeciras á Suður-Spáni. Efnin voru í gámi sem kom frá Ekvador og í fylgiskjölum stóð að í gáminum væru bananar.
Kókaínið upprunnið í Kólumbíu
Lögreglan segir að efnið komi frá Kólumbíu og hafi átt að fara áfram til Portúgals, þaðan sem það átti að fara í dreifingu um allt meginland Evrópu.
Lögreglan segist hafa fengið upplýsingar um þessa stóru sendingar fyrir rúmum mánuði. 15 gámar voru teknir til skoðunar í höfninni, 14 þeirra innihéldu bara banana, en í einum þeirra var bara þunnt lag af banönum og 10 tonn af kókaíni. Talið er að 30 glæpasamtök víðs vegar um álfuna standi saman að smyglinu, efninu var skipt í mismunandi pakkningar og merkt 30 viðtakendum. Enn hefur enginn verið handtekinn.
Bananafyrirtæki notað til að smygla kókaíni
Bananafyrirtækið í Machala í Ekvador sendir um 40 gáma af banönum til Spánar í hverjum mánuði og grunur leikur á að kókaínframleiðendur í Kólumbíu noti fyrirtækið reglulega til að koma efninu til meginlands Evrópu.
Þess má geta að það var í þessari sömu höfn í Algeciras sem stærsti kókaínfundur sögunnar til þessa átti sér stað, vorið 2018. Þá var hald lagt á 8,7 tonn af kókaíni. Það kókaín var líka sagt vera bananar í aðflutningsskjölum.