Tónlist

Björk verð­launuð fyrir Cornucopiu

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Björk flutti Cornucopiu meðal annars á Coachella tónlistarhátíðinni í vor.
Björk flutti Cornucopiu meðal annars á Coachella tónlistarhátíðinni í vor.

Björk Guðmundsdóttir hefur verið valin besti flytjandinn á AIM Independent Music Awards 2023 verðlaunahátíðinni. Tilkynnt var um tónlistarmenn sem tilnefndir voru og sigurvegara í síðustu viku en hátíðin verður haldin þann 26. september.

Björk hlýtur þau verðlaun fyrir Cornucopiu. Aðrir listamenn sem voru á úrtakslista eru BABYMETAL, Beebadoobee, MUNA og Reverend and the Makers.

Verðlaunahátíðin hefur verið haldin síðan 2011 og verðlaunað ýmsa í tónlistarbransanum og má þar nefna Björk, Stormzy, Adele, The Prodigy, 4AD og marga fleiri. Markmið AIM samtakanna er að jafna stöðu sjálfstæðra tónlistarmanna og sjálfstæðra útgáfufyrirtækja á Englandi.

Breska útgáfufyrirtækið One Little Independent er tilnefnt í flokknum besta sjálfstæða útgáfufyrirtækið en fyrirtækið hefur gefið út tónlist með Björk, Ásgeiri Trausta, Árnýju Margréti, Sykurmolunum og Kaktusi Einarssyni.

Fyrsta september næstkomandi hefst Cornucopiu tónleikaferðalag Bjarkar um Evrópu. Fyrstu tónleikarnir munu fara fram í Lissabon, höfuðborg Portúgal. Nú þegar er uppselt á þrenna tónleika en Cornucopia hefur hlotið mikið lof áhorfenda um allan heim.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.