Erlent

Þrír hengdir vegna hryðju­verkará­rásar í Bag­hdad árið 2016

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Árásin vakti mikla reiði og sorg meðal íbúa Baghdad.
Árásin vakti mikla reiði og sorg meðal íbúa Baghdad. epa/Ali Abbas

Þrír voru hengdir í Írak í gær vegna hryðjuverkaárásar í Baghdad árið 2016. Um 300 létu lífið í árásinni, sem var sú mannskæðasta frá innrás Bandaríkjanna og bandamanna árið 2003.

Hryðjuverkasamtökin Ríki íslam lýstu árásinni á hendur sér.

Skrifstofa forsætisráðherrans Mohammed Shia al-Sudani greindi frá aftökunum en ekki frá nöfnum þeirra sem voru líflátnir. AFP hefur hins vegar eftir heimildarmanni að Ghazwan al-Zawbaee, sem talinn er hafa skipulagt árásina, hafi verið þeirra á meðal.

Um var að ræða sprengju í bifreið sem var lagt nærri vinsælli verslanamiðstöð í Karrada á meðan Ramadan stóð yfir. Mörg fórnarlambanna létust í eldsvoða í verslanamiðstöðinni í kjölfar sprengingarinnar.

Þrátt fyrir harðar aðgerðir gegn Ríki íslam í bæði Írak og Sýrlandi telja Sameinuðu þjóðirnar að liðsmenn samtakanna séu enn á bilinu 5 til 7 þúsund talsins og að um helmingur þeirra sé vopnaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×