Skaftárhlaup hefur haldið áfram að vaxa með jöfnum hraða undanfarinn sólarhring. Náttúruvásérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands segir ekki enn ljóst úr hvorum katlinum flæði en gervihnattamyndir sem Háskóli Íslands greindi í gær virtust benda til þess að það kæmi úr eystri katlinum.
„En ef við skoðum rennslisferilinn þá minnir hann um margt til á vestari ketilinn. Þannig það er erfitt að segja fyrr en við fáum frekari gögn af svæðinu,“ segir Einar Hjörleifssson, náttúruvásérfræðingur.
Of snemmt að segja til um hvort toppnum sé náð
Sérfræðingar hjá Veðurstofu Íslands munu funda klukkan 14 í dag og kanna hvort flóðatoppnum sé náð eða hvort hann geti farið hækkandi.

„Það virðist vera að fletjast út en eins og er er of snemmt að segja til um hvort það sé búið að ná hámarki eða muni halda áfram að hækka. Við verðum bara að leyfa tímanum að líða og halda áfram að fylgjast með þessu í dag,“ segir Einar.
„Þessu fylgja alltaf ákveðin leiðindi“
Gísli Halldór Magnússon, bóndi á Ytri-Ásum í Skaftártungu segir hægan vöxt í ánni eins og er.
„Þetta ekkert vatnsmagn miðað við það sem áður hefur verið, ekki þannig. En á meðan þetta er að vaxa veit maður ekkert hvað þetta verður mikið. Á meðan vöxturinn er stöðugur getur orðið heilmikið hlaup, það getur orðið mikið vatnsmagn ef þetta er lengi að vaxa.“
Heimafólk sé ekki ekki uggandi yfir stöðunni eins og er.

„En þessu fylgja alltaf ákveðin leiðindi. Varnargarðar skemmast og þetta fer út á landið og brýtur bakka. Svo þegar það fer að fjara og þornar þá rýkur þetta um allt þessi jökulleðja. Þetta fer um allt og er svona heldur hvimleitt,“ segir Gísli Halldór Magnússon, bóndi í Skaftártungu.