Staðfest er að 115 manns hafi farist í eldunum sem brenndu meðal annars Lahaina, sögufrægan ferðamannastað, til kaldra kola. Ekki er vitað með vissu hversu marga er enn saknað. Lögreglan á Maui er með 110 tilkynningar um fólk sem er saknað en fleiri en fimmtíu eru í virkri rannsókn, að sögn AP-fréttastofunnar.
Búið er að bera kennsla á 45 þeirra látnu. Rannsakendur hafa safnað erfðaefni úr 120 manns til þess að bera kennsl á fleiri líkamsleifar.
Leit að líkamsleifum er að mestu leyti lokið. Búið er að leita á öllu leitarsvæðinu á landi. Leit stendur enn yfir í sjónum fyrir utan Lahaina. Vitað er að fólk stakk sér út í Kyrrahafið til þess að komast undan eldinum og reyknum.
„Við höfum nærri því lokið leitar- og söfnunarverkefninu alveg og snúum okkur að næsta skrefi,“ segir Darryl Oliveira, starfandi yfirmaður almannavarna Maui.
Næstu skref er að fjarlægja hættulegan úrgang á hamfarasvæðinu svo íbúar geti snúið aftur til síns heima. Bandaríska umhverfisstofnunin telur að það gæti tekið fleiri mánuði. Á meðal eiturefna á svæðinu eru málning, skordýraeitur og rafhlöður. Sérfræðingar stofnunarinnar ætla að fara með fjölda sólarrafhlaða í Lahaina eins og ósprungnar sprengjur.